Andrés Bretaprins hefur minnst þrisvar sinnum boðist til að aðstoða saksóknara við rannsókn þeirra á umfangsmiklum kynferðisbrotum Jeffrey Epstein. Þetta segja lögmenn prinsins og segja þeir að Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sé að leita athygli og hafi ekki þáð þau boð Andrésar. Saksóknarar vestanhafs segja þó það fjarri sannleikanum að Andrés hafi verið samvinnuþýður.
Alríkissaksóknarar í Bandaríkjunum lögðu nýverið fram formlega beiðni til yfirvalda Bretlands um að fá að ræða við Andrés vegna rannsóknar þeirra.
Andrés prins var á meðal vina Epstein en prinsinn hefur verið sakaður um kynferðisbrot í tengslum við mál Epstein, sem lést í varðhaldi í New York 10. ágúst síðastliðinn. Andrés hefur hafnað öllum ásökunum gegn sér en hefur dregið sig úr sviðsljósinu og frá störfum sínum innan bresku konungsfjölskyldunnar vegna málsins.
Þó hann hafi sjálfur verið sakaður um brot segja embættismenn að Andrés sé eingöngu vitni og komi ekki að rannsókninni með öðrum hætti. Rannsakendur hafa reynt að ræða við hann í marga mánuði.
Sjá einnig: Lögðu fram opinbera beiðni um að ræða við Andrés vegna Epstein
Í kjölfar þess að beiðnin var opinberuð sendu lögmenn prinsins frá sér yfirlýsingu um vilja hans til að aðstoða. Hann hefði minnst þrisvar sinnum boðist til að ræða við saksóknara á þessu ári.
„Því miður brást ráðuneytið við fyrstu tveimur boðunum með því að brjóta gegn eigin trúnaðarreglum og halda því fram að hertoginn hafi neitað að aðstoða,“ stóð í yfirlýsingunni. Þar stóð einnig að mögulega sæktust umræddir saksóknarar eftir umfjöllun frekar en að vilja í raun ræða við Andrés.
Geoffrey S. Berman, saksóknari í New York, svaraði um hæl og með eigin yfirlýsingu.
„Í dag, reyndi Andrés Bretaprins enn einu sinni að draga upp falska mynd af sér sem viljugum til að aðstoða við yfirstandandi rannsókn á kynferðisbrotum og tengdum glæpum,“ sagði Berman.
Hann sagði Andrés hafa ítrekað neitað viðtali og þar að auki hafi sömu lögmenn og séu nú að halda því fram að Andrés hafi ávallt verið samvinnufús, fyrir um fjórum mánuðum lýst því yfir að prinsinn myndi aldrei mæta í viðtal.
Berman sagði að ef prinsinum væri í raun alvara væru dyr hans alltaf opnar.
Lögmenn Andrésar neituðu að tjá sig frekar við BBC en á vef miðilsins er haft eftir heimildarmanni úr búðum prinsins að þetta sé í þriðja sinn sem Berman brjóti eigin trúnaðarreglur og það geri lögmönnum Andrésar erfitt með að sjá fyrir sér að saksóknarar í Bandaríkjunum muni standa við þeirra eigin orð.