Upp­gjörið: Fram - Aftur­elding 36-33 | Fram í bikarúrslit eftir fram­lengingu

Andri Már Eggertsson skrifar
Fram fagnaði þriggja marka sigri gegn Aftureldingu
Fram fagnaði þriggja marka sigri gegn Aftureldingu Vísir/Vilhelm

Fram vann þriggja marka sigur gegn Aftureldingu 36-33. Leikurinn fór alla leið í framlengingu þar sem Framarar höfðu betur og mæta Stjörnunni í úrslitum Powerade-bikarsins á laugardaginn. 

Framarar fóru töluvert betur af stað en Afturelding. Mosfellingar nýttu fyrstu mínúturnar í að stilla miðið og Framarar skoruðu fyrstu fjögur mörkin. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, neyddist til þess að brenna leikhlé eftir fimm mínútur.

Fram - AftureldingVísir/Vilhelm

Eftir að Daníel Bæring Grétarsson skoraði fyrsta markið fyrir Aftureldingu fór að ganga betur og Mosfellingar jöfnuðu 5-5. Það sló þó ekki Framara út af laginu sem komust aftur fjórum mörkum yfir. Gangur fyrri hálfleiks í hnotskurn var þannig að alltaf þegar Afturelding minnkaði forskot Fram niður í eitt eða tvö mörk komu Framarar með svar. 

Það var hart barist í leik kvöldsinsVísir/Vilhelm

Dagur Fannar Möller, línumaður Fram, skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks en hann átti afbragðs fyrri hálfleik þar sem hann gerði fjögur mörk úr fimm skotum. Fram var þremur mörkum yfir í hálfleik 19-16.

Afturelding spilaði betur í seinni hálfleik og saxaði á forskot Fram jafnt og þétt. Mosfellingar jöfnuðu leikinn í fyrsta skipti þegar að átta mínútur voru eftir en þá komu þrjú mörk í röð frá Fram og allt benti til þess að þeir myndu klára þetta.

Tryggvi Garðar Jónsson í baráttunni við Kristján Ottó HjálmssonVísir/Vilhelm

Leikmenn Aftureldingar voru þó á annari skoðun og gerðu fjögur mörk í röð og komust yfir 29-30 þegar þrjátíu sekúndur voru eftir. Einar Jónsson, þjálfari Fram, tók leikhlé og Dagur Fannar Möller jafnaði og grípa þurfti til framlengingar.

Það var stuð í stúkunniVísir/Vilhelm

Mikilvægi þess að taka frumkvæði í framlengingu er ansi mikið. Framarar náðu að líma saman tvö mörk í röð í fyrri hluta framlengingarinnar en Birgir Steinn Jónsson, leikmaður Aftureldingar, bjargaði sínum mönnum og svaraði með marki rétt áður en fyrri hálfleik framlengingar lauk og staðan var 33-32 en Fram byrjaði með boltann í seinni hálfleik framlengingar.

Framarar fögnuðu vel og innilega þegar sigurinn var í höfnVísir/Vilhelm

Framarar komust strax þremur mörkum yfir í seinni hálfleik framlengingarinnar og útlitið var ansi svart fyrir Mosfellinga í stöðunni 35-32. Fram vann að lokum 36-33 og mætir Stjörnunni í úrslitum Powerade-bikarsins klukkan 16:00 á laugardaginn. 

Framarar voru kátir eftir leikVísir/Vilhelm

Atvik leiksins 

Framarar héldu haus eftir að hafa lent í fyrsta skipti undir í leiknum þegar að þrjátíu sekúndur voru eftir. Dagur Fannar Möller skaut Fram í framlengingu og þar voru Framarar sterkari á svellinu. 

Stjörnur og skúrkar

Breki Hrafn Árnason, markmaður Fram, kom inn á seint í leiknum en stóð sig frábærlega og varði meðal annars tvö víti. Breki varði í heildina 8 skot og endaði með 53,3 prósent markvörslu.

Reynir Þór Stefánsson, leikmaður Fram, fór á kostum og dró vagninn. Hann skoraði 8 mörk úr 11 skotum.

Ihor Kopyshynskyi, leikmaður Aftureldingar, lét lítið fyrir sér fara og skoraði aðeins eitt mark úr þremur skotum sem er mjög ólíkt honum.

Dómararnir [8]

Besta dómaraparið sem við eigum flautaði leik kvöldsins. Þeir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson.

Á köflum var þetta erfiður leikur að dæma enda mikið undir en dómararnir voru samkvæmir sjálfum sér og héldu línu allan leikinn. 

Stemning og umgjörð

Það var rífandi stemning á Ásvöllum og stuðningsmenn Fram og Aftureldingar létu vel í sér heyra og rúmlega það.

Fyrir leik voru heiðursgestir frá báðum liðum sem tóku í höndina á leikmönnum og dómurum. Frá Aftureldingu var fyrrum landsliðsmaðurinn Bjarki Sigurðsson og frá Fram var fyrrum landsliðsmaðurinn Ingólfur Óskarsson. 

„Vorum með þá upp við kaðlana síðustu sekúndurnar en þeir sýndu styrk“

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var afar svekktur eftir leik.Vísir/Vilhelm

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var svekktur eftir þriggja marka tap gegn Fram.

„Það er ótrúlega stutt á milli í þessu. Við vorum að elta en við vorum samt komnir yfir undir lokin og það var svekkjandi að klára þetta ekki þar en svo var eitt atriði sem þetta endar á í framlengingunni. Þegar þeir voru þrjár mínútur í sókn í fyrri hálfleik framlengingarinnar og tóku þrjú fráköst, eitt helvítis frákast og leikurinn hefði verið okkar. Það var ekki meira á milli en svo fengu þeir markvörslu á góðum tímapunkti.“

Afturelding gerði fjögur mörk í röð og komst yfir þegar að þrjátíu sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og Gunnar var svekktur að hafa ekki náð að halda það út.

„Þetta var eitt atriði. Við vorum marki yfir og það var ógeðslega svekkjandi að þeir náðu að jafna og svo í framlengingunni tóku þeir þrjú fráköst sem voru dýr og því fór sem fór.“

„Ég var ánægður með mína drengi sem sýndu karakter og þrautseigju. Við erum búnir að berjast um titla síðustu ár og höldum því áfram.“

Gunnar viðurkenndi að brekkan var orðin ansi brött þegar Fram komst þremur mörkum yfir í framlengingunni. 

„Við fórum að flýta okkur of mikið í sókninni. Hann varði dauðafæri í markinu hjá þeim og þannig fara oft svona leikir þar sem einhver stígur upp. Við gáfum allt í þetta og sýndum ótrúlegan karakter að hanga í þeim og að koma til baka undir lokin og við vorum með þá upp við kaðlana síðustu sekúndurnar en þeir sýndu styrk og jöfnðu,“ sagði Gunnar að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira