Upp­gjörið: Grótta - Haukar 21-31 | Haukar munu etja keppi við Fram í úr­slitum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að marki Gróttu í leiknum. 
Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að marki Gróttu í leiknum.  Vísir/Vilhelm

Haukar munu mæta Fram í úrslitaleik Powerade-bikars kvenna í handbolta. Þetta varð ljóst eftir afar sannfærandi sigur Haukaliðsins gegn Gróttu í leik liðanna í undanúrslitum keppninnar að Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.

Haukar eru í öðru til þriðja sæti Olís-deildarinnar en Gróttukonur sitja aftur á móti botni deildarinnar. Haukar höfðu farið með örugga sigra af hólmi í leikjum liðanna í deildinni í vetur. Fyrirfram var því búist við þægilegum sigri Haukaliðsins og sú varð að lokum raunin.

Grótta beit þó frá sér framan af leik en munurinn á liðunum kom svo í ljós þegar líða tók á leikinn og niðurstaðan tíu marka sigur Haukaliðsins.

Það var í nógu að snúast hjá leikmönnum Gróttu að freista þess að halda böndum á Elínu Klöru Þorkelsdóttur í leiknum. Vísir/Vilhelm

Leikmenn Hauka voru nokkuð frá sínu besta í fyrri hálfleik og Grótta náði að trufla flæðið í sóknarleik þeirra með grimmri vörn sinni. Haukar voru með þriggja til fjögurra marka forskot lungann úr fyrri hálfleiknum en í hálfleik leiddi Haukaliðið með þremur mörkum, 12-9. 

Haukar settu svo upp um einn gír eða jafnvel tvo í upphafi seinni hálfleiks og juku muninn hægt og bítandi upp í tíu mörk, 20-10. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda.

Lokatölur í leiknum urðu 31-21 Haukum í vil. Stefán Arnarsson og Díana Guðjónsdóttir, þjálfarateymi Hauka, rúlluðu liði sínu vel í leiknum og gáta sparað krafta lykilleikmanna fyrir bardagann um bikarinn við Fram sem háður verður eftir tvo daga.  

Stefán Arnarson gefur skipanir á hliðarlínunni. Vísir/Vilhelm

Atvik leiksins

Eins og hendi væri veifað náðu Haukar tíu marka forskoti eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik. Grótta skoraði einungis eitt mark á fyrstu 10 mínútum seinni hálfleiks og tvö mörk fyrsta korterið. Haukar settu upp varnarmúr og Sara Sif Helgadóttir hjálpaði til við að draga bitið úr sóknarleik Gróttu. 

Stjörnur og skúrkar

Einu sinni sem oftar var Elín Klara Þorkelsdóttir í broddi fylkingar hjá Haukaliðinu en hún skoraði níu mörk og var markahæst. Inga Dís Jóhannsdóttir spilaði einungis seinni hálfleikinn og skoraði sex mörk á þeim hálftíma sem hún fékk á parketinu. 

Sara Sif Helgadóttir, markvörður Hauka. Vísir/Vilhelm

Markmenn beggja liða vörðu svo vel en Sara Sif Helgadóttir varði 13 skot hjá Haukum og Anna Karólína Ingadóttir níu hjá Gróttu. Karlotta Kjerúlf Óskarsdóttir var öflugust í sóknarleik Gróttuliðsins í opnu spili. 

Anna Karólína Ingadóttir, markvörður Gróttu. Vísir/Vilhelm

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins þeir, Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson, voru síður en svo í sviðsljósinu í þessum leik og það er til marks um það að dómarar eigi góðan leik þegar lítið ber á þeim. Fyrir störf sín fá þeir kumpánar átta í einkunn. 

Stemming og umgjörð

Bæði lið voru rækilega studd af stuðningsmönnum sínum sem settu skemmtilegan brag á þennan leik. Þegar sigurinn var í höfn var konfettí og tilheyrandi fögnuður hjá Haukamönnum sem fögnuðu sigrinum vel og innilega að leik loknum. 

Ung en vösk stuðningsmannasveit Hauka. Vísir/Vilhelm

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira