Ekki leiðinlegt að eiga við Davíð

Brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stól forsætisráðherra setti nokkurn svip á umræður um fyrstu stefnuræðu Halldórs Ásgrímssonar sem forsætisráðherra í gærkvöld. Davíð Oddsson notaði tækifærið og þakkaði stjórnarandstæðingum fyrir samstarfið. Hann sagði að mörgum væri ekki ljóst hve mikið slíkt samstarf væri, enda átök í þingsölum meira áberandi. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sem talaði á eftir Davíð fagnaði því eins og fleiri ræðumenn að sjá utanríkisráðherrann í hópi ræðumanna og þakkaði honum fyrir sitt leyti samstarfið þau rúmu 13 ár sem hann var forsætisráðherrann. "Það var aldrei leiðinlegt að eiga við Davíð Oddsson" sagði Steingrímur J.