Litla fólkið, vingjarnlegir refir og góðar rottur 11. mars 2005 00:01 Nú eru komnar niðurstöður úr vandlegri rannsókn sem fram hefur farið undanfarna mánuði á beinum lítillar manneskju sem fannst á síðasta ári á eyjunni Flores sem tilheyrir Indónesíu. Þessi beinafundur vakti gríðarlega athygli vegna þess að beinin reyndust vera átján þúsund ára gömul eða þar um bil - þá var manntegundin sem við tilheyrum - homo sapiens - löngu komin fram á sjónarsviðið og hafði dreifst um alla Jörðina, en Litla frúin frá Flores eins og manneskjan var kölluð - af því þetta var kona - hún virtist vera af allt annarri tegund. Því hún var svo lítil - hún var ekki nema um metri á hæð eða á við þriggja til fjögurra ára barn þótt hún virtist vera fullvaxta. Í árdaga mannkynsins - fyrir milljónum ára - þá voru á kreiki frumstæðir apamenn sem voru á að giska svona stórir eða öllu heldur litlir - hinir svokölluðu Suðurapar - til dæmis hún Lucy frá Eþíópíu sem margir þekkja - en hún var sem sagt bæði frumstæð og uppi fyrir lifandis löngu - en að samtímis nútímamanninum hafi verið uppi svo lítil og gerólík manntegund, sem þó virtist vel viti borin og hafa smíðað sér fullkomin áhöld úr steini - það gekk gersamlega í berhögg við alla þá þekkingu sem menn bjuggu áður yfir um sögu mannkynsins. Því reyndist það rétt að Litla frúin frá Flores hafi verið uppi fyrir aðeins átján þúsund árum - þá telst það ekki nema augnablik á mælikvarða þróunarsögunnar. Var Flores-konan fölsuð? Enda var fundur Flores-konunnar mikil hugarraun mörgum vísindamönnum og sumir þeirra vildu í lengstu lög halda í þá trú að hér væri einhver maðkur í mysunni - annaðhvort væri fundur beinanna einhvers konar fölsun - eða þau hefðu altént verið einhvern veginn mistúlkuð - var til dæmis ekki miklu líklegra að Flores-konan væri einfaldlega á einhvern hátt vanskapaður dvergur - smæð hennar væri ekki eðlileg fyrir þá tegund sem hún tilheyrði - hún hefði verið haldin einhverjum sjúkdómi. En nú hafa semsagt bein hennar verið rannsökuð ennþá betur og skemmst er frá því að segja að allt virðist vera með felldu við þær niðurstöður sem kynntar voru á síðasta ári - Flores-konan virðist í alla staði ósvikin - bæði var hún í alvörunni svona lítil þótt hún væri bæði fullvaxin og alheilbrigð - og hún eða hennar fólk virðist líka hafa smíðað þau fínu stein-tól sem fundust með beinum hennar. Þá sýna rannsóknir á heila hennar að þar hefur gráu sellunum verið svo haganlega fyrir komið að hún hafi haft vel getað haft vit nánast á við okkur nútímamennina - þótt heili hennar væri miklu minni, einfaldlega af því hún hafði minni höfuðkúpu. Og það kollvarpar öllum kenningum um að það sé eintóm stærð heilans í okkur nútímamönnunum sem hafi gert okkur kleift að sigra heiminn - svona fagurlega eins og við höfum gert og þarf ekki að fjölyrða um. En litla frúin frá Flores er semsagt ekta - og nú er hafin dauðaleit að leifum fleiri einstaklinga af þessari smávöxnu tegund í hellunum á Flores - og djörfustu vísindamennirnir gera sér meira að segja vonir um að einhvers staðar í myrkviðum frumskóganna í Indónesíu kunni kannski að leynast ennþá lifandi fólk af kynstofni Flores-konunnar. "Heimskur er jafnan höfuðstór"? Ég verð að segja - þó ég sé ekki mikill líffræðingur eða heilaspesjalist - þá kemur mér ekkert voðalega mikið á óvart að Litla frúin frá Flores skuli hafa verið góðum gáfum gædd þótt heili hennar væri ekki mikið stærri en tveir krepptir hnefar eða svo. Í fyrsta lagi, þá þekkjum við náttúrlega öll þann kunna frasa að við notum ekki nema tíu prósent af þeim heila sem okkur er gefinn og þótt þar sé vísast um einhvers konar einföldun að ræða, þá er þó eitthvað til í því. Og Litla frúin frá Flores gæti því bara hafa lært að nota heilann jafn vel og áður, þótt hann minnkaði um leið og kyn hennar smækkaði - en talið er að kyn Flores-konunnar hafi upphaflega verið homo erectus - fyrirrennari homo sapiens - sem minnkaði á skömmum tíma til að bregðast við litlum náttúrugæðum á eyjunni Flores; það hafi einfaldlega verið hagkvæmara fyrir einstaklinga kynstofnsins að vera smávaxnir - þá þurftu þeir minna sér til viðurværis - og þeim mun minni sem einstaklingarnir voru, þeim mun líklegri voru þeir til að komast af. En í öðru lagi - þá hef ég aldrei skilið áhersluna á eintóma heilastærð, þótt hún sé augljóslega mikilvæg, þegar maður lítur til dýraríkisins. Sjáum til dæmis bara tegundina hund. Hundakyn hafa þróast ótal mörg í áranna og aldanna rás og nú er svo komið að hundar eru svo ólíkir innbyrðis að það er varla hægt að ímynda sér að þeir tilheyri allir sömu tegund. Ótrúlegur munur á hundategundum Ef við lítum til dæmis á einn Stór-Dana, sem er á stærð við mjög vænan kálf, annars vegar og svo hins vegar dverghundakynið Chihuahua, sem maður getur nánast stungið í vasann - þá er munurinn allt að því fáránlegur. Þar á meðal er heilinn í Stór-Dana auðvitað miklu stærri en heilinn í Chihuahua. Engu að síður hef ég aldrei vitað til þess að nokkur munur væri á andlegu atgervi Stór-Dana og Chihuahua - sá litli sé ekki hótinu heimskari en sá stóri. Nú er auðvitað grundvallarmunur á heilum manns og hunds en kannski má samt nota dæmi hundanna til viðmiðunar um að stærðin ein skipti ekki öllu - rétt eins og í tilfelli Litlu frúarinnar frá Flores og homo sapiens. Og aðra samsvörun má reyndar líka draga í þessu sambandi milli manna og hunda: það hversu ólík hundakyn eru innbyrðis og einkum og sér í lagi hversu skamman tíma það getur tekið að mynda nýtt hundakyn - það er óneitanlega vísbending um hversu þjál genin geta verið í lifandi verum, ef svo má að orði komast, og þess vegna er ekkert sem mælir líffræðilega á móti því að mennirnir geti ekki þróast og breyst líka á tiltölulega skömmum tíma, eins og hundarnir gera - það virðist jú hægt að beinlínis "búa til" nýja tegund á örfáum áratugum með markvissri ræktun ákveðinna eiginleika. Og því skyldu mennirnir þá ekki geta eitthvað svipað, og í þessu tilviki smækkað niður úr öllu valdi, eins og hún virðist hafa gert, Litla frúin frá Flores, án þess að missa þá hæfileika sem forfaðir hennar homo erectus hafði aflað sér við smíði steináhalda og aðra menníngarlega sýslan. Merkileg tilraun í Rússlandi Annars ... fyrst ég var að tala um hunda ... þá var ég að lesa afar merkilegan kafla í þeirri bók eftir Richard Dawkins dýrafræðing, sem ég nefndi hér Á kassanum um daginn - hún heitir Saga forföðurins og fjallar um uppruna og þróun fjölmargra dýrategunda á Jörðinni - þar á meðal mannsins - og þar nefnir Dawkins merkilega tilraun sem ég hafði ekki heyrt um áður; hún var gerð eða öllu heldur hófst - því hún stendur enn - en hófst í Rússlandi árið 1959. Upphafsmaður tilraunarinnar var Dímítri Beljaév og hann fýsti að vita um áhrif þróunar á hegðunareinkenni dýra. Hann sankaði því að sér eitthvað um tíu þúsund silfurrefum og hóf markvissa ræktun þeirra með það fyrir augum að komast að hvort hægt væri að gera þá að þægum og gæfum húsdýrum rétt eins og hundurinn er - en hundurinn er, eins og menn vita, í rauninni tilbúin tegund; hún var alls ekki til úti í náttúrunni áður en maðurinn kom til. Á löngum tíma löðuðu frummenn að sér forfeður hundsins og hann gerðist á endanum þjónn hans og vinur - og með ræktun, sem að sönnu getur ekki talist hafa verið vísindaleg, heldur var bara svona hipsumhaps - þeir hundar voru látnir fjölga sér sem voru vinsamlegir og komu að gagni - þá varð á endanum til ný dýrategund - altso hundurinn - og hann hefur nú beinlínis í genum sér að laðast að mannskepnunni. Vináttan ræktuð Honum er það í blóð borið - það er orðið partur af eðli hans. Og það var ekki bara eðli villidýrsins sem maðurinn laðaði að sér sem breyttist, heldur líka útlit hans - og það breyttist svo og þróaðist sífellt eftir heimshlutum, eftir því hvað menn töldu æskilegt í fari hinna nýju húsdýra sinna. Beljaév vildi sem sagt komast að því hvort honum tækist að rækta upp í silfurrefunum sínum vináttu í garð mannsins - rétt eins og frummenn ræktu upp vináttuna í forföður hundsins. Þetta var merkileg hugmynd og ekki síst vegna þess að hundurinn er alls ekki kominn af refum. Vissulega eru refir og hundar skyldir, eins og augljóst má vera, en hundakyn heimsins eru samt upphaflega komin af úlfum en ekki refum. Því hefði fyrirfram mátt ætla að verkefni Beljaévs hafi verið erfiðara en ella - við vitum jú að frá úlfum má þróa vingjarnlega seppa, allt oní smákvikindin Chihuahua, þótt úlfarnir sjálfir virðist grimmir og fjandsamlegir, en væri hægt að gera það sama með refi? Tilraun Beljaévs fór í sem skemmstu máli þannig fram að fyrst voru silfurrefslæðurnar látnar eignast sína yrðlinga og voru hafðar í búrum. Eftir að þeir voru fæddir lágu starfsmenn Beljaévs á búrunum og geifluðu sig framan í yrðlingana, ráku inn lúkurnar og tóku yrðlingana og handléku þá eins og fara gerði, svo lengi sem yrðlingarnir voru að komast til refs. Þeir yrðlingar sem sýndu vingjarnlegust viðbrögð voru svo, þegar þeir voru orðnir kynþroska, látnir parast saman og eignast sína eigin yrðlinga. Vísir að nýrri refategund Og þá hófst sami leikurinn; Beljaév og menn hans voru alltaf nálægir að þvælast utan í yrðlingunum og fylgdust vandlega með hverjir væru vinalegastir og þægastir og þeim var síðan á fót komið. Hinir sem sýndu sterk merki um ótta eða illsku í garð mannanna, þeir voru einfaldlega grisjaðir burt - það fylgir reyndar ekki sögunni en mig grunar að þeir hafi fljótlega endað ævina sem silfurrefspelsar utan á fínar frúr eða mektarkarla. Og nú er skemmst frá því að segja að tilraun Beljaévs heppnaðist fullkomlega. Auðvitað tók þetta tímann sinn - silfurrefir verða ekki kynþroska fyrr en eins árs og því var ekki hægt að láta vinalegan yrðling eignast sína eigin yrðlinga með háttprúðri snót fyrr en að ári liðnu - og auðvitað eru erfðir ekki svo einfalt mál að tveir vingjarnlegir refir hafi alltaf og ævinlega eignast eintóma vinalega yrðlinga. En samt sem áður - á ótrúlega skömmum tíma, þá tókst Beljaév að rækta upp í silfurrefunum sínum vináttu í garð mannsins - eftir aðeins rétt rúm tuttugu ár fór að bera á verulegum árangri og núna - þegar fjörutíu ár eru liðin - þá má segja að menn Beljaévs (því sjálfur er hann dáinn fyrir rúmlega fimmtán árum) en núna má segja að þeir séu komnir með greinilega vísi að alveg nýrri refategund sem sýnir mikil og augljós merki vináttu í garð mannsins strax frá rennblautu barnsbeini. Er hægt að rækta nýtt mannkyn? Þessir nýju refir löðuðust eins og hundar að manninum allt frá fæðingu - höfðu það beinlínis í genum sér að laðast að hinni stóru tvífættu skepnu - og hér er rétt að ítreka hvað það þýðir að hafa þetta í genunum - það þýðir að málið snýst ekki bara um að þessir yrðlingar hafi tekið vel atlotum eða þá fyrirskipunum mannsins af því þeir lærðu það í uppeldinu - þeim var það í blóð borið. Rétt eins og hundum - en hvolpar sem alist hafa upp án þess að sjá nokkurn tíma mann hafa samt sterka eðlislæga tilfinningu til að líta á manninn sem vin og húsbónda, strax og mann ber fyrst fyrir augu þeirra, af því það er inngróið í þá eftir allar þær kynslóðir af hundum sem maðurinn hefur ræktað við hlið sér. Þessi árangur Beljaévs var svosem nógu merkilegur - að hafa tekist að gera villta refi að hlýðnum og vinalegum húsdýrum og það á þessum ótrúlega skamma tíma - aðeins rúmum fjörutíu kynslóðum. Það er eiginlega hálf hrollvekjandi tilhugsun - því manni dettur auðvitað strax í hug, væri hægt að gera það sama við menn? Taka menn með einhverja vissa eiginleika og rækta þá saman og eftir aðeins rúmar fjörutíu kynslóðir, þá væru þeir eiginleikar orðnir partur af eðli þeirra og nálega komin fram á sjónarsviðið ný manntegund - þannig séð. Rétt eins og Litla frúin frá Flores kann að hafa smækkað niður úr öllu valdi á ótrúlega skömmum tíma - af því landnemar homo erectus á Flores höfðu svo lítið að éta að lítið fólk lifði frekar af og eignaðist afkvæmi heldur en þurftafreka stóra fólkið - þannig mætti væntanlega líka rækta upp einhverja tiltekna andlega eiginleika á furðulega skömmum tíma. Nýtt refakyn ræktað á tuttugu árum Nú er mannsaldurinn auðvitað mun lengri en hver kynslóð hjá silfurrefum svo samsvarandi árangur sem Beljaév og menn hans náðu með silfurrefunum sínum á rétt rúmum fjörutíu árum mundi nálgast það að taka sex hundruð ár með mönnum. En sex aldir eru samt fáránlega skammur tími í allri þróunarsögu mannsins - og líklega eins gott að enginn fari í alvöru að taka sér annað eins fyrir hendur einsog að rækta nýtt mannkyn. - En þetta, hvað þetta tók skamman tíma hjá Beljaév - að rækta upp nýtt eðli í silfurrefnum, vináttu í garð mannsins og hlýðni við hverja hans skipun - það var ekki það eina merkilega. Því það sem var eiginlega ennþá athyglisverðara var að um leið og lundafar silfurrefsins breyttist, þannig að nýfæddir yrðlingar sóttust eftir því að sleikja andlit og hendur aðvífandi fólks, þá breyttist líka útlit refsins. Því hið beina og loðna skott silfurrefsins tók að hringast eins og rófan á íslenska hundinum en íslenski hundurinn - eða réttara sagt sú ætt sem hann tilheyrir og býr umhverfis allt norðurheimskautið - sú ætt er talin einna næst hin upprunalega hundi, ef svo má þá að orði komast - því það er dálítið erfitt að tala um einhvern upprunalegan hund - hundakynið er jú og hefur verið og verður sjálfsagt áfram stöðugum breytingum háð - fyrst háð duttlungum náttúrunnar þegar hann fór að laðast að manninum og nú háð duttlungum hundaræktenda sem móta og sveigja og beygja gen hans eins og þeim sýnist til að fá fram sífellt skrýtnari hundategundir - já, mér liggur við að segja fáránlegri tegundir. Og silfurrefirnir fóru að dilla rófunni rétt eins og hundar gera þegar þeir vilja sýna manninum vinahót. Liturinn breyttist á ræktuðu refunum Það sem meira var - ekki bara rófan breyttist heldur líka eyrun - í stað hinna oddmjóu uppreistu eyra sem náttúrulegir refir hafa, þá fóru þessir nýtilkomnu hús-refir eða hvað á að kalla þá, þeir fóru að fæðast með lafandi eyru - rétt eins og margar hundategundir hafa. Og það sem allra allra skrýtnast var - þeir breyttu líka um lit. Í stað silfurgráa feldsins sem prýðir eðlilega silfurrefi eru refirnir hans Beljaévs orðnir flekkóttir, gjarnan með hvítan maga og hvítar hosur eru orðnar mjög algengar meðal þeirra. Rétt er að taka fram að liturinn á refunum spilaði alls enga rullu í tilraunum Beljaévs - refir voru aldrei valdir til undaneldis með tilliti til litarháttar eða hárafars - heldur eingöngu á grundvelli skapgerðar - og þess vegna má vera ljóst að liturinn fylgir skapgerðinni í þessu tilfelli. Undirgefin og vinaleg dýr virðast einfaldlega hafa tilhneigingu til þess að vera svona flekkótt á litinn - en ekki þarf að hafa mörg orð um að hundar eru gjarnan flekkóttir - sem og kettir og önnur húsdýr - nefnum bara skjótta hesta og skjöldóttar kýr - en frumhestar úti í náttúrunni eða upprunaleg nautakyn, þau eru aldrei skjótt eða skjöldótt. Og þurfi frekari vitnanna við - þá hefur tilraun Beljaévs nú verið endurtekin í Noregi - nema þar voru það ekki silfurrefir sem voru ræktaðir með tilliti til vináttu við manninn, heldur önnur tegund sem er satt að segja kunn að sérstakri óvináttu - eða hún sneiðir að minnsta kosti hjá öllum kynnum af manninum eins og hún frekast getur. Þetta eru rottur. Vinalegar rottur í hosum Norðmaður að nafni Trut hóf að rækta rottur með nákvæmlega sama fyrirkomulagi og Beljaév hafði ræktað refina - aðeins þær rottur sem sýndu mönnum sæmilega vináttu voru valdar til undaneldis - og viti menn, eftir fimmtán ár og þrjátíu kynslóðir af rottum - þá er komið fram á norskum tilraunastofum rottukyn sem hefðar sér í alla staði eins og bestu vinir mannsins. Rottukyn sem beinlínis sækist eftir nánum kynnum af manninum og hlýðir hverri skipun mannsins. Og það skrýtna gerðist í þessu tilfelli líka - rotturnar skiptu um lit. Eftir fyrrnefnd fimmtán ár voru 73 prósent af hinum nýju rottum með hvítan maga - sem aldrei sést á villtum rottum - margar voru flekkóttar og um það bil helmingurinn af þessum vinalegum rottum var með hvítar hosur. Af þessu öllu má líklega sjá hversu dýrategundir geta breyst hratt - miðað við tímaplan eilífðarinnar að minnsta kosti - og þannig séð er tilvera Litlu frúarinnar frá Flores kannski ekkert undrunarefni. En hvað annað hún kann að kenna okkur, þegar fram líða stundir, það vitum við náttúrlega ekki enn - við verðum alla vega að endurskoða alla þróunarsögu mannsins með tilliti til hennar - og skemmtilegast væri náttúrlega ef - einsog djörfustu vísindamenn vona - einhvers staðar finnst ættingi hennar enn á lífi inní frumskógum Indónesíu. Illugi Jökulsson -[email protected] Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Á kassanum Illugi Jökulsson Mest lesið RS veiran – blikur á lofti Valtýr Stefánsson Thors Skoðun Þrælar jólahefðana - Opið bréf til skóla og frístundasviða á Höfuðborgarsvæðinu Kristín Björg Viggósdóttir Skoðun Upplýsingaóreiða í boði ASÍ Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Hvað getum við lært af sögunni um litlu gulu hænuna? Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir,Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir Skoðun Hugleiðing um listamannalaun II Þórhallur Guðmundsson Skoðun Matvælaöryggi og matvælaöryggismenning Hanna Lóa Skúladóttir,Guðrún Adolfsdóttir Skoðun Hinsegin réttindi til framtíðar Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson Skoðun Lyfsalar og heilbrigðisráðuneyti - í bergmálshelli? Már Egilsson Skoðun Hryggjarstykki jólanna Árni Stefán Árnason Skoðun Eru háskólar á dagskrá? Magnús Karl Magnússon,Þórarinn Guðjónsson Skoðun
Nú eru komnar niðurstöður úr vandlegri rannsókn sem fram hefur farið undanfarna mánuði á beinum lítillar manneskju sem fannst á síðasta ári á eyjunni Flores sem tilheyrir Indónesíu. Þessi beinafundur vakti gríðarlega athygli vegna þess að beinin reyndust vera átján þúsund ára gömul eða þar um bil - þá var manntegundin sem við tilheyrum - homo sapiens - löngu komin fram á sjónarsviðið og hafði dreifst um alla Jörðina, en Litla frúin frá Flores eins og manneskjan var kölluð - af því þetta var kona - hún virtist vera af allt annarri tegund. Því hún var svo lítil - hún var ekki nema um metri á hæð eða á við þriggja til fjögurra ára barn þótt hún virtist vera fullvaxta. Í árdaga mannkynsins - fyrir milljónum ára - þá voru á kreiki frumstæðir apamenn sem voru á að giska svona stórir eða öllu heldur litlir - hinir svokölluðu Suðurapar - til dæmis hún Lucy frá Eþíópíu sem margir þekkja - en hún var sem sagt bæði frumstæð og uppi fyrir lifandis löngu - en að samtímis nútímamanninum hafi verið uppi svo lítil og gerólík manntegund, sem þó virtist vel viti borin og hafa smíðað sér fullkomin áhöld úr steini - það gekk gersamlega í berhögg við alla þá þekkingu sem menn bjuggu áður yfir um sögu mannkynsins. Því reyndist það rétt að Litla frúin frá Flores hafi verið uppi fyrir aðeins átján þúsund árum - þá telst það ekki nema augnablik á mælikvarða þróunarsögunnar. Var Flores-konan fölsuð? Enda var fundur Flores-konunnar mikil hugarraun mörgum vísindamönnum og sumir þeirra vildu í lengstu lög halda í þá trú að hér væri einhver maðkur í mysunni - annaðhvort væri fundur beinanna einhvers konar fölsun - eða þau hefðu altént verið einhvern veginn mistúlkuð - var til dæmis ekki miklu líklegra að Flores-konan væri einfaldlega á einhvern hátt vanskapaður dvergur - smæð hennar væri ekki eðlileg fyrir þá tegund sem hún tilheyrði - hún hefði verið haldin einhverjum sjúkdómi. En nú hafa semsagt bein hennar verið rannsökuð ennþá betur og skemmst er frá því að segja að allt virðist vera með felldu við þær niðurstöður sem kynntar voru á síðasta ári - Flores-konan virðist í alla staði ósvikin - bæði var hún í alvörunni svona lítil þótt hún væri bæði fullvaxin og alheilbrigð - og hún eða hennar fólk virðist líka hafa smíðað þau fínu stein-tól sem fundust með beinum hennar. Þá sýna rannsóknir á heila hennar að þar hefur gráu sellunum verið svo haganlega fyrir komið að hún hafi haft vel getað haft vit nánast á við okkur nútímamennina - þótt heili hennar væri miklu minni, einfaldlega af því hún hafði minni höfuðkúpu. Og það kollvarpar öllum kenningum um að það sé eintóm stærð heilans í okkur nútímamönnunum sem hafi gert okkur kleift að sigra heiminn - svona fagurlega eins og við höfum gert og þarf ekki að fjölyrða um. En litla frúin frá Flores er semsagt ekta - og nú er hafin dauðaleit að leifum fleiri einstaklinga af þessari smávöxnu tegund í hellunum á Flores - og djörfustu vísindamennirnir gera sér meira að segja vonir um að einhvers staðar í myrkviðum frumskóganna í Indónesíu kunni kannski að leynast ennþá lifandi fólk af kynstofni Flores-konunnar. "Heimskur er jafnan höfuðstór"? Ég verð að segja - þó ég sé ekki mikill líffræðingur eða heilaspesjalist - þá kemur mér ekkert voðalega mikið á óvart að Litla frúin frá Flores skuli hafa verið góðum gáfum gædd þótt heili hennar væri ekki mikið stærri en tveir krepptir hnefar eða svo. Í fyrsta lagi, þá þekkjum við náttúrlega öll þann kunna frasa að við notum ekki nema tíu prósent af þeim heila sem okkur er gefinn og þótt þar sé vísast um einhvers konar einföldun að ræða, þá er þó eitthvað til í því. Og Litla frúin frá Flores gæti því bara hafa lært að nota heilann jafn vel og áður, þótt hann minnkaði um leið og kyn hennar smækkaði - en talið er að kyn Flores-konunnar hafi upphaflega verið homo erectus - fyrirrennari homo sapiens - sem minnkaði á skömmum tíma til að bregðast við litlum náttúrugæðum á eyjunni Flores; það hafi einfaldlega verið hagkvæmara fyrir einstaklinga kynstofnsins að vera smávaxnir - þá þurftu þeir minna sér til viðurværis - og þeim mun minni sem einstaklingarnir voru, þeim mun líklegri voru þeir til að komast af. En í öðru lagi - þá hef ég aldrei skilið áhersluna á eintóma heilastærð, þótt hún sé augljóslega mikilvæg, þegar maður lítur til dýraríkisins. Sjáum til dæmis bara tegundina hund. Hundakyn hafa þróast ótal mörg í áranna og aldanna rás og nú er svo komið að hundar eru svo ólíkir innbyrðis að það er varla hægt að ímynda sér að þeir tilheyri allir sömu tegund. Ótrúlegur munur á hundategundum Ef við lítum til dæmis á einn Stór-Dana, sem er á stærð við mjög vænan kálf, annars vegar og svo hins vegar dverghundakynið Chihuahua, sem maður getur nánast stungið í vasann - þá er munurinn allt að því fáránlegur. Þar á meðal er heilinn í Stór-Dana auðvitað miklu stærri en heilinn í Chihuahua. Engu að síður hef ég aldrei vitað til þess að nokkur munur væri á andlegu atgervi Stór-Dana og Chihuahua - sá litli sé ekki hótinu heimskari en sá stóri. Nú er auðvitað grundvallarmunur á heilum manns og hunds en kannski má samt nota dæmi hundanna til viðmiðunar um að stærðin ein skipti ekki öllu - rétt eins og í tilfelli Litlu frúarinnar frá Flores og homo sapiens. Og aðra samsvörun má reyndar líka draga í þessu sambandi milli manna og hunda: það hversu ólík hundakyn eru innbyrðis og einkum og sér í lagi hversu skamman tíma það getur tekið að mynda nýtt hundakyn - það er óneitanlega vísbending um hversu þjál genin geta verið í lifandi verum, ef svo má að orði komast, og þess vegna er ekkert sem mælir líffræðilega á móti því að mennirnir geti ekki þróast og breyst líka á tiltölulega skömmum tíma, eins og hundarnir gera - það virðist jú hægt að beinlínis "búa til" nýja tegund á örfáum áratugum með markvissri ræktun ákveðinna eiginleika. Og því skyldu mennirnir þá ekki geta eitthvað svipað, og í þessu tilviki smækkað niður úr öllu valdi, eins og hún virðist hafa gert, Litla frúin frá Flores, án þess að missa þá hæfileika sem forfaðir hennar homo erectus hafði aflað sér við smíði steináhalda og aðra menníngarlega sýslan. Merkileg tilraun í Rússlandi Annars ... fyrst ég var að tala um hunda ... þá var ég að lesa afar merkilegan kafla í þeirri bók eftir Richard Dawkins dýrafræðing, sem ég nefndi hér Á kassanum um daginn - hún heitir Saga forföðurins og fjallar um uppruna og þróun fjölmargra dýrategunda á Jörðinni - þar á meðal mannsins - og þar nefnir Dawkins merkilega tilraun sem ég hafði ekki heyrt um áður; hún var gerð eða öllu heldur hófst - því hún stendur enn - en hófst í Rússlandi árið 1959. Upphafsmaður tilraunarinnar var Dímítri Beljaév og hann fýsti að vita um áhrif þróunar á hegðunareinkenni dýra. Hann sankaði því að sér eitthvað um tíu þúsund silfurrefum og hóf markvissa ræktun þeirra með það fyrir augum að komast að hvort hægt væri að gera þá að þægum og gæfum húsdýrum rétt eins og hundurinn er - en hundurinn er, eins og menn vita, í rauninni tilbúin tegund; hún var alls ekki til úti í náttúrunni áður en maðurinn kom til. Á löngum tíma löðuðu frummenn að sér forfeður hundsins og hann gerðist á endanum þjónn hans og vinur - og með ræktun, sem að sönnu getur ekki talist hafa verið vísindaleg, heldur var bara svona hipsumhaps - þeir hundar voru látnir fjölga sér sem voru vinsamlegir og komu að gagni - þá varð á endanum til ný dýrategund - altso hundurinn - og hann hefur nú beinlínis í genum sér að laðast að mannskepnunni. Vináttan ræktuð Honum er það í blóð borið - það er orðið partur af eðli hans. Og það var ekki bara eðli villidýrsins sem maðurinn laðaði að sér sem breyttist, heldur líka útlit hans - og það breyttist svo og þróaðist sífellt eftir heimshlutum, eftir því hvað menn töldu æskilegt í fari hinna nýju húsdýra sinna. Beljaév vildi sem sagt komast að því hvort honum tækist að rækta upp í silfurrefunum sínum vináttu í garð mannsins - rétt eins og frummenn ræktu upp vináttuna í forföður hundsins. Þetta var merkileg hugmynd og ekki síst vegna þess að hundurinn er alls ekki kominn af refum. Vissulega eru refir og hundar skyldir, eins og augljóst má vera, en hundakyn heimsins eru samt upphaflega komin af úlfum en ekki refum. Því hefði fyrirfram mátt ætla að verkefni Beljaévs hafi verið erfiðara en ella - við vitum jú að frá úlfum má þróa vingjarnlega seppa, allt oní smákvikindin Chihuahua, þótt úlfarnir sjálfir virðist grimmir og fjandsamlegir, en væri hægt að gera það sama með refi? Tilraun Beljaévs fór í sem skemmstu máli þannig fram að fyrst voru silfurrefslæðurnar látnar eignast sína yrðlinga og voru hafðar í búrum. Eftir að þeir voru fæddir lágu starfsmenn Beljaévs á búrunum og geifluðu sig framan í yrðlingana, ráku inn lúkurnar og tóku yrðlingana og handléku þá eins og fara gerði, svo lengi sem yrðlingarnir voru að komast til refs. Þeir yrðlingar sem sýndu vingjarnlegust viðbrögð voru svo, þegar þeir voru orðnir kynþroska, látnir parast saman og eignast sína eigin yrðlinga. Vísir að nýrri refategund Og þá hófst sami leikurinn; Beljaév og menn hans voru alltaf nálægir að þvælast utan í yrðlingunum og fylgdust vandlega með hverjir væru vinalegastir og þægastir og þeim var síðan á fót komið. Hinir sem sýndu sterk merki um ótta eða illsku í garð mannanna, þeir voru einfaldlega grisjaðir burt - það fylgir reyndar ekki sögunni en mig grunar að þeir hafi fljótlega endað ævina sem silfurrefspelsar utan á fínar frúr eða mektarkarla. Og nú er skemmst frá því að segja að tilraun Beljaévs heppnaðist fullkomlega. Auðvitað tók þetta tímann sinn - silfurrefir verða ekki kynþroska fyrr en eins árs og því var ekki hægt að láta vinalegan yrðling eignast sína eigin yrðlinga með háttprúðri snót fyrr en að ári liðnu - og auðvitað eru erfðir ekki svo einfalt mál að tveir vingjarnlegir refir hafi alltaf og ævinlega eignast eintóma vinalega yrðlinga. En samt sem áður - á ótrúlega skömmum tíma, þá tókst Beljaév að rækta upp í silfurrefunum sínum vináttu í garð mannsins - eftir aðeins rétt rúm tuttugu ár fór að bera á verulegum árangri og núna - þegar fjörutíu ár eru liðin - þá má segja að menn Beljaévs (því sjálfur er hann dáinn fyrir rúmlega fimmtán árum) en núna má segja að þeir séu komnir með greinilega vísi að alveg nýrri refategund sem sýnir mikil og augljós merki vináttu í garð mannsins strax frá rennblautu barnsbeini. Er hægt að rækta nýtt mannkyn? Þessir nýju refir löðuðust eins og hundar að manninum allt frá fæðingu - höfðu það beinlínis í genum sér að laðast að hinni stóru tvífættu skepnu - og hér er rétt að ítreka hvað það þýðir að hafa þetta í genunum - það þýðir að málið snýst ekki bara um að þessir yrðlingar hafi tekið vel atlotum eða þá fyrirskipunum mannsins af því þeir lærðu það í uppeldinu - þeim var það í blóð borið. Rétt eins og hundum - en hvolpar sem alist hafa upp án þess að sjá nokkurn tíma mann hafa samt sterka eðlislæga tilfinningu til að líta á manninn sem vin og húsbónda, strax og mann ber fyrst fyrir augu þeirra, af því það er inngróið í þá eftir allar þær kynslóðir af hundum sem maðurinn hefur ræktað við hlið sér. Þessi árangur Beljaévs var svosem nógu merkilegur - að hafa tekist að gera villta refi að hlýðnum og vinalegum húsdýrum og það á þessum ótrúlega skamma tíma - aðeins rúmum fjörutíu kynslóðum. Það er eiginlega hálf hrollvekjandi tilhugsun - því manni dettur auðvitað strax í hug, væri hægt að gera það sama við menn? Taka menn með einhverja vissa eiginleika og rækta þá saman og eftir aðeins rúmar fjörutíu kynslóðir, þá væru þeir eiginleikar orðnir partur af eðli þeirra og nálega komin fram á sjónarsviðið ný manntegund - þannig séð. Rétt eins og Litla frúin frá Flores kann að hafa smækkað niður úr öllu valdi á ótrúlega skömmum tíma - af því landnemar homo erectus á Flores höfðu svo lítið að éta að lítið fólk lifði frekar af og eignaðist afkvæmi heldur en þurftafreka stóra fólkið - þannig mætti væntanlega líka rækta upp einhverja tiltekna andlega eiginleika á furðulega skömmum tíma. Nýtt refakyn ræktað á tuttugu árum Nú er mannsaldurinn auðvitað mun lengri en hver kynslóð hjá silfurrefum svo samsvarandi árangur sem Beljaév og menn hans náðu með silfurrefunum sínum á rétt rúmum fjörutíu árum mundi nálgast það að taka sex hundruð ár með mönnum. En sex aldir eru samt fáránlega skammur tími í allri þróunarsögu mannsins - og líklega eins gott að enginn fari í alvöru að taka sér annað eins fyrir hendur einsog að rækta nýtt mannkyn. - En þetta, hvað þetta tók skamman tíma hjá Beljaév - að rækta upp nýtt eðli í silfurrefnum, vináttu í garð mannsins og hlýðni við hverja hans skipun - það var ekki það eina merkilega. Því það sem var eiginlega ennþá athyglisverðara var að um leið og lundafar silfurrefsins breyttist, þannig að nýfæddir yrðlingar sóttust eftir því að sleikja andlit og hendur aðvífandi fólks, þá breyttist líka útlit refsins. Því hið beina og loðna skott silfurrefsins tók að hringast eins og rófan á íslenska hundinum en íslenski hundurinn - eða réttara sagt sú ætt sem hann tilheyrir og býr umhverfis allt norðurheimskautið - sú ætt er talin einna næst hin upprunalega hundi, ef svo má þá að orði komast - því það er dálítið erfitt að tala um einhvern upprunalegan hund - hundakynið er jú og hefur verið og verður sjálfsagt áfram stöðugum breytingum háð - fyrst háð duttlungum náttúrunnar þegar hann fór að laðast að manninum og nú háð duttlungum hundaræktenda sem móta og sveigja og beygja gen hans eins og þeim sýnist til að fá fram sífellt skrýtnari hundategundir - já, mér liggur við að segja fáránlegri tegundir. Og silfurrefirnir fóru að dilla rófunni rétt eins og hundar gera þegar þeir vilja sýna manninum vinahót. Liturinn breyttist á ræktuðu refunum Það sem meira var - ekki bara rófan breyttist heldur líka eyrun - í stað hinna oddmjóu uppreistu eyra sem náttúrulegir refir hafa, þá fóru þessir nýtilkomnu hús-refir eða hvað á að kalla þá, þeir fóru að fæðast með lafandi eyru - rétt eins og margar hundategundir hafa. Og það sem allra allra skrýtnast var - þeir breyttu líka um lit. Í stað silfurgráa feldsins sem prýðir eðlilega silfurrefi eru refirnir hans Beljaévs orðnir flekkóttir, gjarnan með hvítan maga og hvítar hosur eru orðnar mjög algengar meðal þeirra. Rétt er að taka fram að liturinn á refunum spilaði alls enga rullu í tilraunum Beljaévs - refir voru aldrei valdir til undaneldis með tilliti til litarháttar eða hárafars - heldur eingöngu á grundvelli skapgerðar - og þess vegna má vera ljóst að liturinn fylgir skapgerðinni í þessu tilfelli. Undirgefin og vinaleg dýr virðast einfaldlega hafa tilhneigingu til þess að vera svona flekkótt á litinn - en ekki þarf að hafa mörg orð um að hundar eru gjarnan flekkóttir - sem og kettir og önnur húsdýr - nefnum bara skjótta hesta og skjöldóttar kýr - en frumhestar úti í náttúrunni eða upprunaleg nautakyn, þau eru aldrei skjótt eða skjöldótt. Og þurfi frekari vitnanna við - þá hefur tilraun Beljaévs nú verið endurtekin í Noregi - nema þar voru það ekki silfurrefir sem voru ræktaðir með tilliti til vináttu við manninn, heldur önnur tegund sem er satt að segja kunn að sérstakri óvináttu - eða hún sneiðir að minnsta kosti hjá öllum kynnum af manninum eins og hún frekast getur. Þetta eru rottur. Vinalegar rottur í hosum Norðmaður að nafni Trut hóf að rækta rottur með nákvæmlega sama fyrirkomulagi og Beljaév hafði ræktað refina - aðeins þær rottur sem sýndu mönnum sæmilega vináttu voru valdar til undaneldis - og viti menn, eftir fimmtán ár og þrjátíu kynslóðir af rottum - þá er komið fram á norskum tilraunastofum rottukyn sem hefðar sér í alla staði eins og bestu vinir mannsins. Rottukyn sem beinlínis sækist eftir nánum kynnum af manninum og hlýðir hverri skipun mannsins. Og það skrýtna gerðist í þessu tilfelli líka - rotturnar skiptu um lit. Eftir fyrrnefnd fimmtán ár voru 73 prósent af hinum nýju rottum með hvítan maga - sem aldrei sést á villtum rottum - margar voru flekkóttar og um það bil helmingurinn af þessum vinalegum rottum var með hvítar hosur. Af þessu öllu má líklega sjá hversu dýrategundir geta breyst hratt - miðað við tímaplan eilífðarinnar að minnsta kosti - og þannig séð er tilvera Litlu frúarinnar frá Flores kannski ekkert undrunarefni. En hvað annað hún kann að kenna okkur, þegar fram líða stundir, það vitum við náttúrlega ekki enn - við verðum alla vega að endurskoða alla þróunarsögu mannsins með tilliti til hennar - og skemmtilegast væri náttúrlega ef - einsog djörfustu vísindamenn vona - einhvers staðar finnst ættingi hennar enn á lífi inní frumskógum Indónesíu. Illugi Jökulsson -[email protected]
Þrælar jólahefðana - Opið bréf til skóla og frístundasviða á Höfuðborgarsvæðinu Kristín Björg Viggósdóttir Skoðun
Hvað getum við lært af sögunni um litlu gulu hænuna? Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir,Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir Skoðun
Hinsegin réttindi til framtíðar Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson Skoðun
Þrælar jólahefðana - Opið bréf til skóla og frístundasviða á Höfuðborgarsvæðinu Kristín Björg Viggósdóttir Skoðun
Hvað getum við lært af sögunni um litlu gulu hænuna? Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir,Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir Skoðun
Hinsegin réttindi til framtíðar Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson Skoðun