Fegurðarsamkeppni í fréttamennsku Illugi Jökulsson skrifar 11. mars 2005 00:01 Hæst hefur borið núna seinni partinn ráðningu fréttastjóra á fréttastofu útvarpsins. Ég vann lengi á Ríkisútvarpinu – sjaldnast að vísu sem fastur starfsmaður og aldrei á fréttastofunni en eigi að síður þekki ég orðið flesta þá fréttamenn sem þar hafa lengst starfað. Og það tekur mig því sárt að verða vitni að þeirri niðurlægingu þeirra sem ráðning Auðuns Georgs Ólafssonar í stöðuna er óneitanlega – hvernig sem einhverjir kunna að reyna að þræta fyrir það. Pétur Gunnarsson réttlætir ráðninguna Hér áðan var hérna á Talstöðinni viðtal við framkvæmdastjóra þingflokks Framsóknarflokksins, Pétur Gunnarsson, en hann er varafulltrúi í útvarpsráði og tók í gær þátt í þeirri atkvæðagreiðslu í útvarpsráði þar sem Auðun Georg fékk öll atkvæði fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í ráðinu. Og hann leitaðist við að réttlæta ráðningu Auðuns Georgs með því hvað hann hefði víðtæka reynslu af stjórnunar- og rekstrarstörfum hvers konar, en hann hefur starfað undanfarin ár sem sölu- og markaðsstjóri hjá Marel í Asíu. Þar ku hann hafa staðið sig vel en reynslu af fréttamennsku hefur hann hins vegar litla. Hann var um hríð aðstoðarmaður Hallgríms okkar Thorsteinssonar í þættinum Reykjavík síðdegis sem Bylgjan sendi út þá eins og nú – og seinna var hann um annað skeið fréttamaður og fréttaritari á Stöð 2. Raunveruleg reynsla hans af fréttamennsku og skyldum störfum nær þó samanlagt aðeins yfir fáein ár og aldrei var hann í fararbroddi á þeim vettvangi – eða sýndi nein þau tilþrif að hefðu getað vakið á honum sérstaka athygli. Á hinn bóginn voru meðal umsækjenda um fréttastjórastöðuna ýmsir gamalreyndir fréttamenn sem ekki einungis hafa starfað áratugum saman fyrir Ríkisútvarpið og kunna fréttamennskuna upp á sína tíu fingur – kunna bæði að afla frétta – matreiða þær – og kunna líka að reka fréttastofu, því þarna voru menn sem hafa verið settir yfir fréttastofuna í afleysingum – menn sem hafa rekið ýmsar deildir hjá Ríkisútvarpinu jafnvel árum saman – stundað vaktstjórn – yfirleitt gengið til allra starfa – menn sem ekki nokkur kjaftur getur með góðu efast um að hefðu orðið frábærir fréttastjórar. Reynsla höfð að engu Því þeir kynnu ekki aðeins að reka fréttastofuna – heldur kunna líka að móta fréttastefnu – vega og meta fréttir – og sem skilja íslenskt samfélag – íslenska þjóðarsál – íslenska þjóð. Öllum þessum umsækjendum var hafnað af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í útvarpsráði og nú af Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra RÚV þegar Auðun Georg Ólafsson var ráðinn nú fyrir fáeinum stundum. Líka þeim fimm sem hlutu sérstök meðmæli yfirfréttastjóra Ríkisútvarpsins, Boga Ágústssonar, en það voru Friðrik Páll Jónsson, Hjördís Finnbogadóttir, Óðinn Jónsson, Jóhann Hauksson og Arnar Páll Hauksson – allt fólk sem útvarpshlustendur þekkja af góðu. Og áðan – þegar Pétur Gunnarsson kom sem sagt hingað á Talstöðina til að réttlæta hvernig hann og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum greiddu atkvæði í útvarpsráði og var spurður hverju það sætti að áratugareynsla þessa fólks hefði verið höfð að engu og ráðinn í staðinn sá maður sem áberandi minnsta reynslu hefur af fréttamennsku – þá hnussaði eitthvað í Pétri og hann sagði eitthvað á þá leið að þetta hefði nú ekki verið nein “fegurðarsamkeppni í fréttamennsku”. Það sem menn missa út úr sér Ég vek sérstaka athygli á þessu orðalagi – fegurðarsamkeppni í fréttamennsku. Áratuga starf þessara fréttamanna – sú reynsla sem þeir hafa viðað að sér – allur sá metnaður sem þeir hafa lagt í starf sitt – allur sá eldmóður sem hefur fylgt þeim í vinnuna – öll sú tryggð sem þeir hafa sýnt Ríkisútvarpinu gegnum þykkt og þunnt – öll hæfni þeirra, hæfileikar og starfsferill – þetta allt leggur Pétur Gunnarsson að jöfnu við “fegurðarsamkeppni í fréttamennsku” og ákveður að hafa að engu. Ímyndið ykkur hrokann. Ímyndið ykkur fyrirlitninguna sem býr í þessum orðum. Það segir oft meira um hugarfar manna hvað þeir missa út úr sér heldur en hitt hvað þeir segja að vel athugðu máli. Annars kom Pétur vel undirbúinn í þetta viðtal við okkur hér á Talstöðinni – hann kom vopnaður auglýsingunni um fréttastjórastarfið og las það upphátt og vitnaði síðan til þess hvað eftir annað – og þá sérstaklega til þeirra kafla sem honum fannst styðja það álit sitt (eða réttara sagt, það sem hann sagði vera álit sitt – til þess að réttlæta niðurstöðuna – en það voru semsagt þeir kaflar þar sem mest var fjallað um þær skyldur fréttastjóra sem fælust í rekstrar- og stjórnunarstörfum fréttastjórans. Og Pétur lá í plagginu og túlkaði þetta þannig að í rauninni hefði helst verið auglýst eftir bókhaldara en ekki því sem við höfum hingað til vanist því að kalla fréttastjóra – og vitum öll hvaða hæfileikum þarf að vera gæddur. Er fréttastofan bissniss-fyrirtæki? En þeir hæfileikar eru einskis virði – það er bara “fegurðarsamkeppni í fréttamennsku” eins og Pétur orðaði – nei, meira virði væri að fá inn á fréttastofuna mann með rekstraráherslu og rekstrarþekkingu. Eins og fréttastofan sé umfram allt bissnissfyrirtæki sem ætlað er að skila hagnaði. Nú er það að sjálfsögðu æskilegt fyrir yfirmann eins og fréttastjóra á fréttastofu Ríkisútvarpsins að kunna að leggja saman – passa upp á að dálkurinn yfir útgjöldin verði ekki hærri en dálkurinn yfir þann pening sem fréttastofan fær til ráðstöfunar. En allir þeir fréttamenn sem ég taldi upp áðan – þeir kunna líka vel að leggja saman og draga frá – þeim er öllum fyllilega treystandi til þess að setja ekki fréttastofuna á hausinn. Enda eru allar þær ástæður fyrir ráðningu Auðuns Georgs sem við höfum heyrt nú þegar – frá Pétri Gunnarssyni hér á Talstöðinni og í tilkynningu frá Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra þar sem hann tilkynnir að hann hafi ráðið Auðun Georg – þetta tuð um hversu lífsnauðsynlegt sé fyrir fréttastjóra að hafa víðtæka reynslu af rekstri og stjórnun og bókhaldi – allar þessar ástæður, þær eru bara bull. Við skulum ekki eyða frekari orðum að þeim. “Sá eini sem ekki er kommúnisti” Hin rétta ástæða – hún er sú sem Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formaður útvarpsráðs og sjálfstæðismaður segir sínum kunningjum – en ekki, vel að merkja opinberlega. Það er best að taka fram að ég hef ekki heyrt Gunnlaug Sævar segja þetta sjálfan – en ég hef þetta þó eftir heimildum sem ég tel áreiðanlegar – altso, hann mun segja vinum sínum að Auðun Georg Ólafsson væri eini umsækjandinn sem kæmi til grein, því hann væri sá eini sem ekki væri kommúnisti. Ég endurtek: kommúnisti. Að menn taki svona til orða núorðið, það er vitaskuld með ólíkindum. Þetta er svo mikið bull að það tekur því ekki að hrekja það – en hins vegar sýnir þetta að ráðningin er auðvitað rammpólitísk og ekkert annað. Og hversu lengi – ég endurtek hversu lengi – eigum við að sitja uppi með þetta samfélag – þar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa mikilvægustu stofnanir samfélagsins að pólitískum leiksoppi – og víla ekki fyrir sér að niðurlægja og smána samviskusama starfsmenn í leiðinni – eins og núna fréttamenn Ríkisútvarpsins. Greinilega aldrei komið nóg Í hvert einasta sinn sem þessir ríkisstjórnarflokkar sýna vald sitt með þessum hætti – þá heldur maður að nú hljóti þeim sjálfum að hafa blöskrað – nú hljóti að vera komið nóg – þetta geti ekki gengið svona endalaust. Valdníðslan – fyrirlitningin. En það er greinilega aldrei komið nóg – hver ótrúlega mannaráðningin eftir aðra – öll þessi ár – það þyrfti reyndar að fara að taka það saman – Hæstarétt, Ríkisútvarpið, umboðsmann barna – æ, ég hef ekki geð í mér til að halda því áfram. Maður heldur sem sagt alltaf að í hvert sinn hljóti þeir að sjá að sér, þessir hrokafullu stjórnarherrar – sem hugsa alveg augljóslega ekki um neitt, ekki um neitt faglegt – leiða ekki hugann að sanngirni, réttlæti – það er bara hlaðið undir sína menn – völdunum potað til þeirra – í hvert sinn heldur maður að það sé komið nóg – en það er greinilega aldrei komið nóg. Það er bara haldið áfram að valta og valta og valta ... Illugi Jökulsson -[email protected] Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Á kassanum Illugi Jökulsson Talstöðin Ráðning Auðuns Georgs Mest lesið RS veiran – blikur á lofti Valtýr Stefánsson Thors Skoðun Þrælar jólahefðana - Opið bréf til skóla og frístundasviða á Höfuðborgarsvæðinu Kristín Björg Viggósdóttir Skoðun Upplýsingaóreiða í boði ASÍ Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Hvað getum við lært af sögunni um litlu gulu hænuna? Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir,Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir Skoðun Hugleiðing um listamannalaun II Þórhallur Guðmundsson Skoðun Hinsegin réttindi til framtíðar Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson Skoðun Matvælaöryggi og matvælaöryggismenning Hanna Lóa Skúladóttir,Guðrún Adolfsdóttir Skoðun Lyfsalar og heilbrigðisráðuneyti - í bergmálshelli? Már Egilsson Skoðun Hryggjarstykki jólanna Árni Stefán Árnason Skoðun Eru háskólar á dagskrá? Magnús Karl Magnússon,Þórarinn Guðjónsson Skoðun
Hæst hefur borið núna seinni partinn ráðningu fréttastjóra á fréttastofu útvarpsins. Ég vann lengi á Ríkisútvarpinu – sjaldnast að vísu sem fastur starfsmaður og aldrei á fréttastofunni en eigi að síður þekki ég orðið flesta þá fréttamenn sem þar hafa lengst starfað. Og það tekur mig því sárt að verða vitni að þeirri niðurlægingu þeirra sem ráðning Auðuns Georgs Ólafssonar í stöðuna er óneitanlega – hvernig sem einhverjir kunna að reyna að þræta fyrir það. Pétur Gunnarsson réttlætir ráðninguna Hér áðan var hérna á Talstöðinni viðtal við framkvæmdastjóra þingflokks Framsóknarflokksins, Pétur Gunnarsson, en hann er varafulltrúi í útvarpsráði og tók í gær þátt í þeirri atkvæðagreiðslu í útvarpsráði þar sem Auðun Georg fékk öll atkvæði fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í ráðinu. Og hann leitaðist við að réttlæta ráðningu Auðuns Georgs með því hvað hann hefði víðtæka reynslu af stjórnunar- og rekstrarstörfum hvers konar, en hann hefur starfað undanfarin ár sem sölu- og markaðsstjóri hjá Marel í Asíu. Þar ku hann hafa staðið sig vel en reynslu af fréttamennsku hefur hann hins vegar litla. Hann var um hríð aðstoðarmaður Hallgríms okkar Thorsteinssonar í þættinum Reykjavík síðdegis sem Bylgjan sendi út þá eins og nú – og seinna var hann um annað skeið fréttamaður og fréttaritari á Stöð 2. Raunveruleg reynsla hans af fréttamennsku og skyldum störfum nær þó samanlagt aðeins yfir fáein ár og aldrei var hann í fararbroddi á þeim vettvangi – eða sýndi nein þau tilþrif að hefðu getað vakið á honum sérstaka athygli. Á hinn bóginn voru meðal umsækjenda um fréttastjórastöðuna ýmsir gamalreyndir fréttamenn sem ekki einungis hafa starfað áratugum saman fyrir Ríkisútvarpið og kunna fréttamennskuna upp á sína tíu fingur – kunna bæði að afla frétta – matreiða þær – og kunna líka að reka fréttastofu, því þarna voru menn sem hafa verið settir yfir fréttastofuna í afleysingum – menn sem hafa rekið ýmsar deildir hjá Ríkisútvarpinu jafnvel árum saman – stundað vaktstjórn – yfirleitt gengið til allra starfa – menn sem ekki nokkur kjaftur getur með góðu efast um að hefðu orðið frábærir fréttastjórar. Reynsla höfð að engu Því þeir kynnu ekki aðeins að reka fréttastofuna – heldur kunna líka að móta fréttastefnu – vega og meta fréttir – og sem skilja íslenskt samfélag – íslenska þjóðarsál – íslenska þjóð. Öllum þessum umsækjendum var hafnað af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í útvarpsráði og nú af Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra RÚV þegar Auðun Georg Ólafsson var ráðinn nú fyrir fáeinum stundum. Líka þeim fimm sem hlutu sérstök meðmæli yfirfréttastjóra Ríkisútvarpsins, Boga Ágústssonar, en það voru Friðrik Páll Jónsson, Hjördís Finnbogadóttir, Óðinn Jónsson, Jóhann Hauksson og Arnar Páll Hauksson – allt fólk sem útvarpshlustendur þekkja af góðu. Og áðan – þegar Pétur Gunnarsson kom sem sagt hingað á Talstöðina til að réttlæta hvernig hann og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum greiddu atkvæði í útvarpsráði og var spurður hverju það sætti að áratugareynsla þessa fólks hefði verið höfð að engu og ráðinn í staðinn sá maður sem áberandi minnsta reynslu hefur af fréttamennsku – þá hnussaði eitthvað í Pétri og hann sagði eitthvað á þá leið að þetta hefði nú ekki verið nein “fegurðarsamkeppni í fréttamennsku”. Það sem menn missa út úr sér Ég vek sérstaka athygli á þessu orðalagi – fegurðarsamkeppni í fréttamennsku. Áratuga starf þessara fréttamanna – sú reynsla sem þeir hafa viðað að sér – allur sá metnaður sem þeir hafa lagt í starf sitt – allur sá eldmóður sem hefur fylgt þeim í vinnuna – öll sú tryggð sem þeir hafa sýnt Ríkisútvarpinu gegnum þykkt og þunnt – öll hæfni þeirra, hæfileikar og starfsferill – þetta allt leggur Pétur Gunnarsson að jöfnu við “fegurðarsamkeppni í fréttamennsku” og ákveður að hafa að engu. Ímyndið ykkur hrokann. Ímyndið ykkur fyrirlitninguna sem býr í þessum orðum. Það segir oft meira um hugarfar manna hvað þeir missa út úr sér heldur en hitt hvað þeir segja að vel athugðu máli. Annars kom Pétur vel undirbúinn í þetta viðtal við okkur hér á Talstöðinni – hann kom vopnaður auglýsingunni um fréttastjórastarfið og las það upphátt og vitnaði síðan til þess hvað eftir annað – og þá sérstaklega til þeirra kafla sem honum fannst styðja það álit sitt (eða réttara sagt, það sem hann sagði vera álit sitt – til þess að réttlæta niðurstöðuna – en það voru semsagt þeir kaflar þar sem mest var fjallað um þær skyldur fréttastjóra sem fælust í rekstrar- og stjórnunarstörfum fréttastjórans. Og Pétur lá í plagginu og túlkaði þetta þannig að í rauninni hefði helst verið auglýst eftir bókhaldara en ekki því sem við höfum hingað til vanist því að kalla fréttastjóra – og vitum öll hvaða hæfileikum þarf að vera gæddur. Er fréttastofan bissniss-fyrirtæki? En þeir hæfileikar eru einskis virði – það er bara “fegurðarsamkeppni í fréttamennsku” eins og Pétur orðaði – nei, meira virði væri að fá inn á fréttastofuna mann með rekstraráherslu og rekstrarþekkingu. Eins og fréttastofan sé umfram allt bissnissfyrirtæki sem ætlað er að skila hagnaði. Nú er það að sjálfsögðu æskilegt fyrir yfirmann eins og fréttastjóra á fréttastofu Ríkisútvarpsins að kunna að leggja saman – passa upp á að dálkurinn yfir útgjöldin verði ekki hærri en dálkurinn yfir þann pening sem fréttastofan fær til ráðstöfunar. En allir þeir fréttamenn sem ég taldi upp áðan – þeir kunna líka vel að leggja saman og draga frá – þeim er öllum fyllilega treystandi til þess að setja ekki fréttastofuna á hausinn. Enda eru allar þær ástæður fyrir ráðningu Auðuns Georgs sem við höfum heyrt nú þegar – frá Pétri Gunnarssyni hér á Talstöðinni og í tilkynningu frá Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra þar sem hann tilkynnir að hann hafi ráðið Auðun Georg – þetta tuð um hversu lífsnauðsynlegt sé fyrir fréttastjóra að hafa víðtæka reynslu af rekstri og stjórnun og bókhaldi – allar þessar ástæður, þær eru bara bull. Við skulum ekki eyða frekari orðum að þeim. “Sá eini sem ekki er kommúnisti” Hin rétta ástæða – hún er sú sem Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formaður útvarpsráðs og sjálfstæðismaður segir sínum kunningjum – en ekki, vel að merkja opinberlega. Það er best að taka fram að ég hef ekki heyrt Gunnlaug Sævar segja þetta sjálfan – en ég hef þetta þó eftir heimildum sem ég tel áreiðanlegar – altso, hann mun segja vinum sínum að Auðun Georg Ólafsson væri eini umsækjandinn sem kæmi til grein, því hann væri sá eini sem ekki væri kommúnisti. Ég endurtek: kommúnisti. Að menn taki svona til orða núorðið, það er vitaskuld með ólíkindum. Þetta er svo mikið bull að það tekur því ekki að hrekja það – en hins vegar sýnir þetta að ráðningin er auðvitað rammpólitísk og ekkert annað. Og hversu lengi – ég endurtek hversu lengi – eigum við að sitja uppi með þetta samfélag – þar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa mikilvægustu stofnanir samfélagsins að pólitískum leiksoppi – og víla ekki fyrir sér að niðurlægja og smána samviskusama starfsmenn í leiðinni – eins og núna fréttamenn Ríkisútvarpsins. Greinilega aldrei komið nóg Í hvert einasta sinn sem þessir ríkisstjórnarflokkar sýna vald sitt með þessum hætti – þá heldur maður að nú hljóti þeim sjálfum að hafa blöskrað – nú hljóti að vera komið nóg – þetta geti ekki gengið svona endalaust. Valdníðslan – fyrirlitningin. En það er greinilega aldrei komið nóg – hver ótrúlega mannaráðningin eftir aðra – öll þessi ár – það þyrfti reyndar að fara að taka það saman – Hæstarétt, Ríkisútvarpið, umboðsmann barna – æ, ég hef ekki geð í mér til að halda því áfram. Maður heldur sem sagt alltaf að í hvert sinn hljóti þeir að sjá að sér, þessir hrokafullu stjórnarherrar – sem hugsa alveg augljóslega ekki um neitt, ekki um neitt faglegt – leiða ekki hugann að sanngirni, réttlæti – það er bara hlaðið undir sína menn – völdunum potað til þeirra – í hvert sinn heldur maður að það sé komið nóg – en það er greinilega aldrei komið nóg. Það er bara haldið áfram að valta og valta og valta ... Illugi Jökulsson -[email protected]
Þrælar jólahefðana - Opið bréf til skóla og frístundasviða á Höfuðborgarsvæðinu Kristín Björg Viggósdóttir Skoðun
Hvað getum við lært af sögunni um litlu gulu hænuna? Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir,Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir Skoðun
Hinsegin réttindi til framtíðar Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson Skoðun
Þrælar jólahefðana - Opið bréf til skóla og frístundasviða á Höfuðborgarsvæðinu Kristín Björg Viggósdóttir Skoðun
Hvað getum við lært af sögunni um litlu gulu hænuna? Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir,Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir Skoðun
Hinsegin réttindi til framtíðar Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson Skoðun