David Beckham, leikmaður Real Madrid og enska landsliðsins hallast að því að Chelsea vinni meistaradeildina í ár. Hann segir að liðinu hafi tekist að slípast fyrr saman en nokkur átti von á og hrósar Jose Mourinho öðrum fremur fyrir velgengni liðsins í tímabilinu. "Þeir eru með ungan knattspyrnustjóra og hann hefur tekið mikið af pressunni af leikmönnunum og fyrir það á hann hrós skilið og hefur unnið virðingu leikmanna sinna fyrir það. Chelsea hefur verið að leika mjög vel í vetur og ég held að þeir hafi það sem til þarf til að vinna Meistaradeildina í vor", sagði Beckham.