Hinn risinn rís á fætur 16. mars 2005 00:01 Ég reiknaði það einu sinni út í flugvél á leið frá Indlandi að Indverjum hafði fjölgað um meira en eina milljón þessar þrjár vikur sem ég stoppaði í landinu. Mér varð líka hugsað til þess að á sléttunum meðfram Gangesfljóti, bjó fleira fólk en samanlagt í risaveldum þess tíma, Sovétríkjunum og Bandaríkjunum. Á litlu svæði við ósa Ganges og Bramaputra, á landskika sem er heldur stærri en Ísland býr nú fleira fólk en í öllu Rússlandi. Menn vita flestir af því að fimmtungur jarðarbúa býr á Indlandsskaga, flestir þeirra á Indlandi sjálfu, en þessi staðreynd er þó yfirleitt ekki stór dráttur í mynd manna af heiminum. Þetta er vegna þess að Indland hefur skipt svo litlu máli í viðskiptum og pólitík heimsins á síðustu áratugum. En það er að breytast. Slík er stærð Indlands að stórar breytingar á högum manna þar geta haft veruleg áhrif á stjórnmál, viðskipti og menningu heimsins, rétt eins og uppgangurinn í Kína er að breyta atvinnulífi um allan heim og aðstæðum í stjórnmálum í stórum hluta hans. Það segir nokkra sögu um mögulega fyrirferð þessara tveggja þjóða að þær eru jafn stór hluti af mannkyninu og reykvíkingar eru af íslensku þjóðinni. Þótt Indland standi Kína enn langt að baki hvað varðar efnahagsþróun ríkir þar engin kyrrstaða lengur. Hagvöxtur hefur tekið verulega við sér og gæti numið 6-7% á ári næstu árin ef ekki kemur til stórfelldra pólitískra eða efnahagslegra áfalla. Indverskar borgir eru teknar að breytast með miklum hraða. Ný millistétt með nýjar neysluvenjur er orðin áberandi en til hennar telst álíka margt fólk og býr í Bandaríkjunum. Breytingarnar virðast hins vegar stundum ná til fárra. Ökuferð í gegnum indverska stórborg er enn eitt af margbrotnustu ferðalögum sem menn geta farið á einni dagstund því þar ægir saman nýjum tíma og gömlum, hátækni og steinöld, vaxandi velsæld og skelfilegustu örbyrgð í heimi. Ég heimsótti ríkan kaupsýslumann fyrir nokkru á Indlandi til að ræða um hátæknifyrirtæki en á meðan þjónn hans fylgdi mér út í bíl sóttu að okkur holdsveikir betlarar og limlest börn. Menn finna heldur ekki enn sem komið er mikið fyrir Indlandi í heimsviðskiptum nema fáeinum greinum eins og í hugbúnaðarframleiðslu, þar sem Indland hefur náð gífurlegum árangri og í einstaka greinum iðnaðar, eins og lyfjaiðnaði og framleiðslu íhluta í bíla. Eitt það athyglisverðasta í atvinnulífinu er tilflutningur á alls kyns þjónustustarfsemi og hönnunarvinnu frá fyrirtækjum á Vesturlöndum til fyrirtækja á Indlandi sem taka að sér allt frá símaþjónustu og bókhaldi yfir í tölvu og verkfræðiþjónustu fyrir vestræn fyrirtæki. Indland er enn tiltölulega lokað hagkerfi, þótt það sé óðum að opnast, á meðan Kína er orðið þriðja stærsta viðskiptaland heimsins. Erlend fjárfesting í Kína er líka tuttugu sinnum meiri en á Indlandi. Þótt indverskir háskólar útskrifi meira en hundrað þúsund verkfræðinga á hverju ári er grunnskólakerfi landsins í molum. Þeir sem vilja fá einhvern skilning á möguleikum og hættum næstu áratuga í atvinnulífi og pólitík heimsins verða engu að síður að taka Indland með í reikninginn sem eitt af stórveldum framtíðar. Mönnum hættir til að gleyma því hve stutt er síðan Vesturlönd náðu sínum yfirburðum í heiminum. Fyrir innan við tvö hundruð árum síðan var Kína stærsta hagkerfi heimsins og hafði þá verið það samfleytt í tvö þúsund ár. Indland var næststærst. Um það leyti sem Jónas Hallgrímsson var að yrkja sín kvæði mynduðu Indland og Kína í sameiningu nálega helminginn af hagkerfi heimsins. Rúmlega hundrað árum seinna, við lok nýlendutímans, mældust þau í sameiningu með um 7% af framleiðslu heimsins. Kínverjar líta á síðustu tvær aldir sem stutt hlé á eðlilegum yfirburðum Kína í heiminum. Þegar ég kom fyrst til Indlands vildu allir ræða við mig um skelfingar nýlendutímans og þau óleysanlegu efnahagslegu vandræði sem landið hafði ratað í. Nú vilja menn ræða framtíðina. Indland og Kína eiga langt í land með að hafa sömu fyrirferð í heiminum og Reykjavík hefur á Íslandi en þarna býr fólkið, þarna er margslungnustu menningu í mannheimi að finna, og þarna munu stórir kaflar í sögu okkar mannanna gerast á næstum árum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun
Ég reiknaði það einu sinni út í flugvél á leið frá Indlandi að Indverjum hafði fjölgað um meira en eina milljón þessar þrjár vikur sem ég stoppaði í landinu. Mér varð líka hugsað til þess að á sléttunum meðfram Gangesfljóti, bjó fleira fólk en samanlagt í risaveldum þess tíma, Sovétríkjunum og Bandaríkjunum. Á litlu svæði við ósa Ganges og Bramaputra, á landskika sem er heldur stærri en Ísland býr nú fleira fólk en í öllu Rússlandi. Menn vita flestir af því að fimmtungur jarðarbúa býr á Indlandsskaga, flestir þeirra á Indlandi sjálfu, en þessi staðreynd er þó yfirleitt ekki stór dráttur í mynd manna af heiminum. Þetta er vegna þess að Indland hefur skipt svo litlu máli í viðskiptum og pólitík heimsins á síðustu áratugum. En það er að breytast. Slík er stærð Indlands að stórar breytingar á högum manna þar geta haft veruleg áhrif á stjórnmál, viðskipti og menningu heimsins, rétt eins og uppgangurinn í Kína er að breyta atvinnulífi um allan heim og aðstæðum í stjórnmálum í stórum hluta hans. Það segir nokkra sögu um mögulega fyrirferð þessara tveggja þjóða að þær eru jafn stór hluti af mannkyninu og reykvíkingar eru af íslensku þjóðinni. Þótt Indland standi Kína enn langt að baki hvað varðar efnahagsþróun ríkir þar engin kyrrstaða lengur. Hagvöxtur hefur tekið verulega við sér og gæti numið 6-7% á ári næstu árin ef ekki kemur til stórfelldra pólitískra eða efnahagslegra áfalla. Indverskar borgir eru teknar að breytast með miklum hraða. Ný millistétt með nýjar neysluvenjur er orðin áberandi en til hennar telst álíka margt fólk og býr í Bandaríkjunum. Breytingarnar virðast hins vegar stundum ná til fárra. Ökuferð í gegnum indverska stórborg er enn eitt af margbrotnustu ferðalögum sem menn geta farið á einni dagstund því þar ægir saman nýjum tíma og gömlum, hátækni og steinöld, vaxandi velsæld og skelfilegustu örbyrgð í heimi. Ég heimsótti ríkan kaupsýslumann fyrir nokkru á Indlandi til að ræða um hátæknifyrirtæki en á meðan þjónn hans fylgdi mér út í bíl sóttu að okkur holdsveikir betlarar og limlest börn. Menn finna heldur ekki enn sem komið er mikið fyrir Indlandi í heimsviðskiptum nema fáeinum greinum eins og í hugbúnaðarframleiðslu, þar sem Indland hefur náð gífurlegum árangri og í einstaka greinum iðnaðar, eins og lyfjaiðnaði og framleiðslu íhluta í bíla. Eitt það athyglisverðasta í atvinnulífinu er tilflutningur á alls kyns þjónustustarfsemi og hönnunarvinnu frá fyrirtækjum á Vesturlöndum til fyrirtækja á Indlandi sem taka að sér allt frá símaþjónustu og bókhaldi yfir í tölvu og verkfræðiþjónustu fyrir vestræn fyrirtæki. Indland er enn tiltölulega lokað hagkerfi, þótt það sé óðum að opnast, á meðan Kína er orðið þriðja stærsta viðskiptaland heimsins. Erlend fjárfesting í Kína er líka tuttugu sinnum meiri en á Indlandi. Þótt indverskir háskólar útskrifi meira en hundrað þúsund verkfræðinga á hverju ári er grunnskólakerfi landsins í molum. Þeir sem vilja fá einhvern skilning á möguleikum og hættum næstu áratuga í atvinnulífi og pólitík heimsins verða engu að síður að taka Indland með í reikninginn sem eitt af stórveldum framtíðar. Mönnum hættir til að gleyma því hve stutt er síðan Vesturlönd náðu sínum yfirburðum í heiminum. Fyrir innan við tvö hundruð árum síðan var Kína stærsta hagkerfi heimsins og hafði þá verið það samfleytt í tvö þúsund ár. Indland var næststærst. Um það leyti sem Jónas Hallgrímsson var að yrkja sín kvæði mynduðu Indland og Kína í sameiningu nálega helminginn af hagkerfi heimsins. Rúmlega hundrað árum seinna, við lok nýlendutímans, mældust þau í sameiningu með um 7% af framleiðslu heimsins. Kínverjar líta á síðustu tvær aldir sem stutt hlé á eðlilegum yfirburðum Kína í heiminum. Þegar ég kom fyrst til Indlands vildu allir ræða við mig um skelfingar nýlendutímans og þau óleysanlegu efnahagslegu vandræði sem landið hafði ratað í. Nú vilja menn ræða framtíðina. Indland og Kína eiga langt í land með að hafa sömu fyrirferð í heiminum og Reykjavík hefur á Íslandi en þarna býr fólkið, þarna er margslungnustu menningu í mannheimi að finna, og þarna munu stórir kaflar í sögu okkar mannanna gerast á næstum árum.