Vörurnar koma flestar frá Danmörku og segjast þær stöllur vera mjög hrifnar af danskri hönnun, auk þess sem danskar fatastærðir henti íslenskum konum vel. Mikið er lagt upp úr því að hafa fatnaðinn vandaðan og öðruvísi og mikið er um fallega liti í bland við einlitar og sígildar flíkur. Fylgihlutir eru í miklu úrvali eins og skór, töskur og belti að ónefndu fallegu skarti en við búðarkassann eru skúffurnar stútfullar af fallegu og litríku perluskarti og öðrum gersemum. Ef þetta er ekki nóg, má þarna finna hágæða pelsa frá Svíþjóð og silkimjúka leðurjakka frá Danmörku.







