Dvergurinn og daman 10. apríl 2006 00:01 Þegar við vorum næstum því farin að trúa því að við værum stórveldi - eftir allar útrásarauglýsingarnar og fréttirnar af áhrifum krónunnar á gengi brasílíska rælsins - var okkur kippt niður á jörðina af þremur nöfnum úr jurtaríkinu: Bush, Rice og Rumsfeld. Við erum semsagt enn bara dvergþjóð sem hefur títuprjónsgildi í alþjóðamálum. Já, sárt er það. Hvernig skilja dvergar? Líklega ekki alveg á sama hátt og aðrir menn. Ekki síst ef þeir voru giftir slíkum tveggja metra dömum sem Bandaríkin eru. Innst inni átti dvergurinn alltaf von á skilnaði. Í raun skildi hann aldrei hvað þessi skutla var að gera með honum. Það kemur honum því ekki alveg á óvart þegar í ljós kemur að allan tímann átti hún hundrað elskhuga og fer nú fram á skilnað vegna þess að hún var að bæta við sig tíu nýjum. Hvað gerir dvergur? Við höfum fylgst með því í fréttum hvernig ráðamenn okkar glíma við höfnunartilfinningu sem er aðeins of stór fyrir litla þjóð. Þeir hafa tekið þessu þegjandi. Bera harm sinn í hljóði. Muldra eitthvað um að þeir hafi átt von á þessu, rétt eins og dvergurinn sem átti alltaf von á því að daman dömpaði honum. Dvergadömp er sannarlega sorglegt fyrirbæri en óneitanlega einnig ögn skoplegt. Og það hefur verið sárgrætilegt að fylgjast með okkar fremstu mönnum. Utanríkisráðherra reyndi að snúa málinu upp í grín og talaði um að maður fengi ekki alltaf sætustu stelpuna heim með sér af ballinu. Heldur yrði maður að sætta sig við eitthvað annað sem gerði sama gagn. Þessi óheppilegi húmor á eftir að fylgja Geir H. Haarde um ókomin ár og með honum teiknaði hann ömurlega mynd af okkur Íslendingum. Hin nýstolta útrásarþjóð lítur á sig sem flottan gæja og finnur sig ekki í myndinni af desperat fyllibyttu á dansleik. Á árunum áður voru slíkir menn kallaðir korter-í-þrjú-gæjar. Þegar skemmtistaðirnir lokuðu klukkan þrjú lækkuðu menn kröfurnar jafn hratt og stundin nálgaðist. Korter-í-þrjú-gæinn Geir hugnast okkur ekki. Að minnsta kosti finnst okkur þetta ekki rétta hugarfarið þegar menn eru á leið í "samningaviðræður" um framtíð landvarna. Samningadagur rann upp og Kaninn mætti með... já, nánast með allt varnarliðið. Hvorki fleiri né færri en tuttugu og sex herforingjar í fullum skrúða voru leiddir inn í Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg til að taka sér sæti gegnt fimm hlédrægum Íslendingum sem aldrei höfðu skotið úr byssu. Hvaða sýning var þetta? Vart áttu þeir allir að taka til máls? Var þetta nokkuð annað en óprúttið "show of force"? Það var sem maður heyrði hneggjandi táningshláturinn í Bush á bakvið medalíuvegginn sem blasti við fimmenningunum á þessum "samningafundi". Að sögn kom herforingjaherinn ekki með neinar tillögur. Það var erfitt að taka þessu öðruvísi en sem úthugsaðri niðurlægingu. "Sýnum þessum derringslega dvergi hversu stór hann er í raun." Í kjölfarið komu síðan fregnir af bókagjöf Bandaríkjamanna, rétt eins og þeim hafi ofboðið fáfræði okkar fólks á fundinum. "Við erum þá farnir. Bless. En talið við okkur þegar þið eruð búnir að lesa þetta." Niðurlæging á niðurlægingu ofan. Daman er ekki bara búin að gleyma dvergnum daginn eftir skilnað heldur gerir hún grín að honum opinberlega. Samt sem áður hafa okkar menn nú ákveðið að bíða enn frekar eftir tillögum frá Kananum, gefa þeim annan séns. Þegar Golíat sýnir tennurnar verður manni hugsað til Davíðs. Kannski hefði kokhreysti hans komið sér vel nú. En þá munum við eftir fundi hans og Bush og erum ekki lengur jafn viss. Orðaskipti þeirra við blaðamenn eru birt í nýrri bók Andra Snæs, lesning sem rifjar upp sorgartilfinninguna sem fylgdi því að sjá Davíð breytast í dverg við hlið Golíats. "The future of the world is much better," sagði Prime Minister Oddsson um Íraksstríðið. "There is hope now. There was no hope before." Auðvitað er það visst afrek að koma út eins og kjáni þegar maður situr við hliðina á George W. Bush - afrek sem að líkindum var fórn sem nú hefur hinsvegar komið í ljós að skilaði engu. Það er sárt að niðurlægja sig í von um umbun en fá síðan ekki. Æ æ. Það er og verður alltaf snúið fyrir dverg að umgangast risa og ég er ekki með neinar snjallar lausnir á hegðan okkar manna í nútíð eða fortíð, Halldórs, Geirs eða Davíðs. En við hljótum samt að fara fram á ögn meiri myndugleik. Það hlýtur alltaf að vera skárra að mæta mönnum standandi heldur en liggjandi, jafnvel þótt maður sé ekki hár í loftinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Hallgrímur Helgason Skoðanir Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun
Þegar við vorum næstum því farin að trúa því að við værum stórveldi - eftir allar útrásarauglýsingarnar og fréttirnar af áhrifum krónunnar á gengi brasílíska rælsins - var okkur kippt niður á jörðina af þremur nöfnum úr jurtaríkinu: Bush, Rice og Rumsfeld. Við erum semsagt enn bara dvergþjóð sem hefur títuprjónsgildi í alþjóðamálum. Já, sárt er það. Hvernig skilja dvergar? Líklega ekki alveg á sama hátt og aðrir menn. Ekki síst ef þeir voru giftir slíkum tveggja metra dömum sem Bandaríkin eru. Innst inni átti dvergurinn alltaf von á skilnaði. Í raun skildi hann aldrei hvað þessi skutla var að gera með honum. Það kemur honum því ekki alveg á óvart þegar í ljós kemur að allan tímann átti hún hundrað elskhuga og fer nú fram á skilnað vegna þess að hún var að bæta við sig tíu nýjum. Hvað gerir dvergur? Við höfum fylgst með því í fréttum hvernig ráðamenn okkar glíma við höfnunartilfinningu sem er aðeins of stór fyrir litla þjóð. Þeir hafa tekið þessu þegjandi. Bera harm sinn í hljóði. Muldra eitthvað um að þeir hafi átt von á þessu, rétt eins og dvergurinn sem átti alltaf von á því að daman dömpaði honum. Dvergadömp er sannarlega sorglegt fyrirbæri en óneitanlega einnig ögn skoplegt. Og það hefur verið sárgrætilegt að fylgjast með okkar fremstu mönnum. Utanríkisráðherra reyndi að snúa málinu upp í grín og talaði um að maður fengi ekki alltaf sætustu stelpuna heim með sér af ballinu. Heldur yrði maður að sætta sig við eitthvað annað sem gerði sama gagn. Þessi óheppilegi húmor á eftir að fylgja Geir H. Haarde um ókomin ár og með honum teiknaði hann ömurlega mynd af okkur Íslendingum. Hin nýstolta útrásarþjóð lítur á sig sem flottan gæja og finnur sig ekki í myndinni af desperat fyllibyttu á dansleik. Á árunum áður voru slíkir menn kallaðir korter-í-þrjú-gæjar. Þegar skemmtistaðirnir lokuðu klukkan þrjú lækkuðu menn kröfurnar jafn hratt og stundin nálgaðist. Korter-í-þrjú-gæinn Geir hugnast okkur ekki. Að minnsta kosti finnst okkur þetta ekki rétta hugarfarið þegar menn eru á leið í "samningaviðræður" um framtíð landvarna. Samningadagur rann upp og Kaninn mætti með... já, nánast með allt varnarliðið. Hvorki fleiri né færri en tuttugu og sex herforingjar í fullum skrúða voru leiddir inn í Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg til að taka sér sæti gegnt fimm hlédrægum Íslendingum sem aldrei höfðu skotið úr byssu. Hvaða sýning var þetta? Vart áttu þeir allir að taka til máls? Var þetta nokkuð annað en óprúttið "show of force"? Það var sem maður heyrði hneggjandi táningshláturinn í Bush á bakvið medalíuvegginn sem blasti við fimmenningunum á þessum "samningafundi". Að sögn kom herforingjaherinn ekki með neinar tillögur. Það var erfitt að taka þessu öðruvísi en sem úthugsaðri niðurlægingu. "Sýnum þessum derringslega dvergi hversu stór hann er í raun." Í kjölfarið komu síðan fregnir af bókagjöf Bandaríkjamanna, rétt eins og þeim hafi ofboðið fáfræði okkar fólks á fundinum. "Við erum þá farnir. Bless. En talið við okkur þegar þið eruð búnir að lesa þetta." Niðurlæging á niðurlægingu ofan. Daman er ekki bara búin að gleyma dvergnum daginn eftir skilnað heldur gerir hún grín að honum opinberlega. Samt sem áður hafa okkar menn nú ákveðið að bíða enn frekar eftir tillögum frá Kananum, gefa þeim annan séns. Þegar Golíat sýnir tennurnar verður manni hugsað til Davíðs. Kannski hefði kokhreysti hans komið sér vel nú. En þá munum við eftir fundi hans og Bush og erum ekki lengur jafn viss. Orðaskipti þeirra við blaðamenn eru birt í nýrri bók Andra Snæs, lesning sem rifjar upp sorgartilfinninguna sem fylgdi því að sjá Davíð breytast í dverg við hlið Golíats. "The future of the world is much better," sagði Prime Minister Oddsson um Íraksstríðið. "There is hope now. There was no hope before." Auðvitað er það visst afrek að koma út eins og kjáni þegar maður situr við hliðina á George W. Bush - afrek sem að líkindum var fórn sem nú hefur hinsvegar komið í ljós að skilaði engu. Það er sárt að niðurlægja sig í von um umbun en fá síðan ekki. Æ æ. Það er og verður alltaf snúið fyrir dverg að umgangast risa og ég er ekki með neinar snjallar lausnir á hegðan okkar manna í nútíð eða fortíð, Halldórs, Geirs eða Davíðs. En við hljótum samt að fara fram á ögn meiri myndugleik. Það hlýtur alltaf að vera skárra að mæta mönnum standandi heldur en liggjandi, jafnvel þótt maður sé ekki hár í loftinu.