Borgarstjóratíð Björns Bjarna 22. maí 2006 00:01 Á kjördag fyrir fjórum árum var ég staddur í Berlín. Ég lagði á mig hálftíma í lest og annan á fæti í 30 stiga hita til að kjósa í nýja samnorræna sendiráðinu. Heilsaði daufeygðum sendiherra og setti X fyrir framan D í fyrsta (og nokkuð líklega síðasta) sinn. Ég var ekki ánægður með R-lista-árin 98-02 og vildi koma því á framfæri. Það var til einskis gert. Björn Bjarnason átti víst aldrei séns. Hinsvegar átti R-listinn séns, jafnvel án Sollu: Síðustu fjögur árin virðist mun meira hafa gerst í Reykjavík en kjörtímabilið þar á undan. Sumt til ógæfu eins og færsla Hringbrautar, og annað vafasamt eins og Orkuveituhöllin, en fyrst og fremst margt til gæfu, eins og skólamáltíðir, frístundaheimili, þjónustuver, launabætur ófaglærðra, lækkun leikskólagjalda, leiðrétting launamisréttis, Airwaves, Loftbrú, NASA, Food & Fun, Vetrarhátíð, Jafnréttisverðlaun, Hótel Centrum, Landnámsskáli, Alþjóðahús, Kvosarumbætur, Hlemmsumbætur, Skuggahverfi 101, Vatnsmýrarsamkeppni og leit hafin að nýju flugvallarstæði auk þess sem Mýrargötuhverfi, Sundabraut og Tónlistarhús eru innan seilingar. Meira að segja gamla Ziemsen-húsið var horfið þegar ég mætti í vinnu í morgun. Það er eins og þrír borgarstjórar hafi komið meiru í verk en einn og ekki hægt að segja annað en að Reykjavík blómstri þessa dagana. Eins gott að maður var ekki í meirihluta vorið 2002. Hvað var maður eiginlega að hugsa? Strax um haustið opinberaði stóri flokkurinn eðli sitt með aðstoð Moggasonar og þremur árum síðar var staðfest að Sjálfstæðisflokkurinn var og er að nokkru leyti enn í höndum óþverragengis. Þökk sé Jónínu Ben. En mig verkjar enn í atkvæðið mitt. Slíkt verður ekki aftur tekið. Síðast í liðinni viku frétti ég að "mínir menn" hefðu setið hjá við lækkun leikskólagjalda fyrr í vetur. Og eftir því sem nær líður komandi kosningum ágerist eftirsjáin. Í gærmorgun vaknaði ég meira að segja upp við þá martröð að D-listinn hefði í raun og veru unnið síðustu borgarstjórnarkosningar. Við mér blasti borgarstjóratíð Björns Bjarnasonar. Já. Hvernig væri borgin okkar í dag ef D-listinn hefði unnið síðustu kosningar? Ef Björn Bjarnason hefði orðið borgarstjóri árið 2002 væru nú engar Bónusbúðir í Reykjavík. Útsendingar NFS og Stöðvar tvö næðust ekki innan borgarmarkanna og aka þyrfti á bensínstöðvar í Hafnarfirði eftir Fréttablaðinu. Jón Steinar Gunnlaugsson væri forstöðumaður Höfuðborgarstofu sem færi með verslana- og fjölmiðlaleyfi fyrir Reykjavíkurborg og Sveinn Andri Sveinsson yfirmaður hins nýja og glæsilega Flokkshundagarðs á Geirsnefi. Báðir hefðu þeir haft heppnina með sér í Stóra lóðalottóinu og byggju nú í glæsilegum sérbýlum í Hallarhverfi í Geldinganesi, að Valhöll 3 og Vilhöll 7. Hinsvegar hefði Bauhaus ekki verið jafn heppið og væri á leið í Fjörðinn. Gæsluvellirnir hefðu verið færðir undir Gæsluna. Food & Fun hátíðin héti God & Gun: Alþjóðleg samkoma þar sem heittrúaðir byssumenn sýna skotfimi og ræða nýjar tegundir svöðusára. Heiðursgestir á síðustu hátíð: Donald Rumsfeld og Paul Wolfowitz. Orkuveitan væri í eigu Bakkavararbræðra, sem hefðu fullnýtt samlegðaráhrif hennar og Símans; aðeins þeir sem væru með Breiðbandið ættu kost á heitu vatni og Enska boltanum. Vilhjálmur Þ væri að sönnu yfirmaður borgarskipulagsins og meira að segja búinn að byggja Sturlubraut upp á Kjalarnes, sem alfarið var kostuð af Ríkissjóði, en hún væri of innarlega og menn væru strax farnir að ræða þörf á nýrri Sundabraut. Hinsvegar væri engin umræða um flugvöllinn í Vatnsmýri önnur en eilífðardeilan um það hvers vegna Höfuðborgarstofa afturkallaði lendingarleyfið fyrir einkaþotu Jóns Ásgeirs á Reykjavíkurflugvelli. Skemmtilegasta afleiðingin af borgarstjóratíð Björns Bjarnasonar, fyrir utan nýjan einkennisbúning borgarstarfsmanna, væri þó líklega salan á SVR. Eftir að Strætó komst í eigu Björgólfs Guðmundssonar er fólki greitt fyrir að ferðast með honum. Hinsvegar þiggja fáir farið þar sem allar leiðir enda nú í Kaplaskjóli, í vögnum máluðum í KR-litunum. Líklega skiptir það svolitlu máli hverjir sitja í Ráðhúsinu. Líklega skiptir máli hvern maður kýs. Síðast reyndi Sjálfstæðiflokkurinn að sýnast venjulegur stjórnmálaflokkur en kom skömmu síðar út úr skápnum sem hvítflibbaður bófaflokkur með lögguna í vasanum. Nú er hann aftur kominn á biðilsbuxurnar, bleikar að lit, og skreytir sig með mjúkum málum, stolnum af R-listanum. Sjálfstæðisflokkurinn er nánast orðinn samkynhneigður í málflutningi sínum. En sem gamall kjósandi D-listans veit maður betur. Maður veit að Sjálfstæðisflokkurinn er enginn yndishommi heldur harður nagli með gemsann fullan af verktökum og veskið troðið af lóðum; með annað augað á hæstarétti, hitt á Bessastöðum og styttu af Davíð í smíðum. Kosningar eru alvörumál. Það skiptir máli hvað við kjósum. Dag eða gærdag. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Skoðanir Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun
Á kjördag fyrir fjórum árum var ég staddur í Berlín. Ég lagði á mig hálftíma í lest og annan á fæti í 30 stiga hita til að kjósa í nýja samnorræna sendiráðinu. Heilsaði daufeygðum sendiherra og setti X fyrir framan D í fyrsta (og nokkuð líklega síðasta) sinn. Ég var ekki ánægður með R-lista-árin 98-02 og vildi koma því á framfæri. Það var til einskis gert. Björn Bjarnason átti víst aldrei séns. Hinsvegar átti R-listinn séns, jafnvel án Sollu: Síðustu fjögur árin virðist mun meira hafa gerst í Reykjavík en kjörtímabilið þar á undan. Sumt til ógæfu eins og færsla Hringbrautar, og annað vafasamt eins og Orkuveituhöllin, en fyrst og fremst margt til gæfu, eins og skólamáltíðir, frístundaheimili, þjónustuver, launabætur ófaglærðra, lækkun leikskólagjalda, leiðrétting launamisréttis, Airwaves, Loftbrú, NASA, Food & Fun, Vetrarhátíð, Jafnréttisverðlaun, Hótel Centrum, Landnámsskáli, Alþjóðahús, Kvosarumbætur, Hlemmsumbætur, Skuggahverfi 101, Vatnsmýrarsamkeppni og leit hafin að nýju flugvallarstæði auk þess sem Mýrargötuhverfi, Sundabraut og Tónlistarhús eru innan seilingar. Meira að segja gamla Ziemsen-húsið var horfið þegar ég mætti í vinnu í morgun. Það er eins og þrír borgarstjórar hafi komið meiru í verk en einn og ekki hægt að segja annað en að Reykjavík blómstri þessa dagana. Eins gott að maður var ekki í meirihluta vorið 2002. Hvað var maður eiginlega að hugsa? Strax um haustið opinberaði stóri flokkurinn eðli sitt með aðstoð Moggasonar og þremur árum síðar var staðfest að Sjálfstæðisflokkurinn var og er að nokkru leyti enn í höndum óþverragengis. Þökk sé Jónínu Ben. En mig verkjar enn í atkvæðið mitt. Slíkt verður ekki aftur tekið. Síðast í liðinni viku frétti ég að "mínir menn" hefðu setið hjá við lækkun leikskólagjalda fyrr í vetur. Og eftir því sem nær líður komandi kosningum ágerist eftirsjáin. Í gærmorgun vaknaði ég meira að segja upp við þá martröð að D-listinn hefði í raun og veru unnið síðustu borgarstjórnarkosningar. Við mér blasti borgarstjóratíð Björns Bjarnasonar. Já. Hvernig væri borgin okkar í dag ef D-listinn hefði unnið síðustu kosningar? Ef Björn Bjarnason hefði orðið borgarstjóri árið 2002 væru nú engar Bónusbúðir í Reykjavík. Útsendingar NFS og Stöðvar tvö næðust ekki innan borgarmarkanna og aka þyrfti á bensínstöðvar í Hafnarfirði eftir Fréttablaðinu. Jón Steinar Gunnlaugsson væri forstöðumaður Höfuðborgarstofu sem færi með verslana- og fjölmiðlaleyfi fyrir Reykjavíkurborg og Sveinn Andri Sveinsson yfirmaður hins nýja og glæsilega Flokkshundagarðs á Geirsnefi. Báðir hefðu þeir haft heppnina með sér í Stóra lóðalottóinu og byggju nú í glæsilegum sérbýlum í Hallarhverfi í Geldinganesi, að Valhöll 3 og Vilhöll 7. Hinsvegar hefði Bauhaus ekki verið jafn heppið og væri á leið í Fjörðinn. Gæsluvellirnir hefðu verið færðir undir Gæsluna. Food & Fun hátíðin héti God & Gun: Alþjóðleg samkoma þar sem heittrúaðir byssumenn sýna skotfimi og ræða nýjar tegundir svöðusára. Heiðursgestir á síðustu hátíð: Donald Rumsfeld og Paul Wolfowitz. Orkuveitan væri í eigu Bakkavararbræðra, sem hefðu fullnýtt samlegðaráhrif hennar og Símans; aðeins þeir sem væru með Breiðbandið ættu kost á heitu vatni og Enska boltanum. Vilhjálmur Þ væri að sönnu yfirmaður borgarskipulagsins og meira að segja búinn að byggja Sturlubraut upp á Kjalarnes, sem alfarið var kostuð af Ríkissjóði, en hún væri of innarlega og menn væru strax farnir að ræða þörf á nýrri Sundabraut. Hinsvegar væri engin umræða um flugvöllinn í Vatnsmýri önnur en eilífðardeilan um það hvers vegna Höfuðborgarstofa afturkallaði lendingarleyfið fyrir einkaþotu Jóns Ásgeirs á Reykjavíkurflugvelli. Skemmtilegasta afleiðingin af borgarstjóratíð Björns Bjarnasonar, fyrir utan nýjan einkennisbúning borgarstarfsmanna, væri þó líklega salan á SVR. Eftir að Strætó komst í eigu Björgólfs Guðmundssonar er fólki greitt fyrir að ferðast með honum. Hinsvegar þiggja fáir farið þar sem allar leiðir enda nú í Kaplaskjóli, í vögnum máluðum í KR-litunum. Líklega skiptir það svolitlu máli hverjir sitja í Ráðhúsinu. Líklega skiptir máli hvern maður kýs. Síðast reyndi Sjálfstæðiflokkurinn að sýnast venjulegur stjórnmálaflokkur en kom skömmu síðar út úr skápnum sem hvítflibbaður bófaflokkur með lögguna í vasanum. Nú er hann aftur kominn á biðilsbuxurnar, bleikar að lit, og skreytir sig með mjúkum málum, stolnum af R-listanum. Sjálfstæðisflokkurinn er nánast orðinn samkynhneigður í málflutningi sínum. En sem gamall kjósandi D-listans veit maður betur. Maður veit að Sjálfstæðisflokkurinn er enginn yndishommi heldur harður nagli með gemsann fullan af verktökum og veskið troðið af lóðum; með annað augað á hæstarétti, hitt á Bessastöðum og styttu af Davíð í smíðum. Kosningar eru alvörumál. Það skiptir máli hvað við kjósum. Dag eða gærdag.