Stefán Baldursson leikstjóri hefur ekki starfað í Borgarleikhúsinu síðan hann setti opnunarsýninguna á svið 1989. Hann hafði þá starfað í hartnær tvo áratugi fyrir Leikfélag Reykjavíkur og var leikhússtjóri þar árin meðan Borgarleikhúsið var í byggingu.
Eftir opnun leikhússins fór hann til starfa erlendis, en tók svo við stjórn Þjóðleikhússins. Stefán segir þau Þórunni S. Þorgrímsdóttur nýta sér allt sviðið og hringinn í sviðsetningu á Amadeus. Honum finnst verkið standast vel tímans tönn:
„Meðan öfund, flærð og undirferli ríkir í mannlegum samskiptum á það erindi.“ Hann segir Shaeffer hafa endurskoðað verkið reglulega og í þessari sviðsetningu er lokauppgjör Salieri og Mozart gerólíkt því sem var í fyrstu sviðsetningunni.
Það eru ekki bara ungu leikararnir sem eru að fóta sig á stóra sviðinu í fyrsta sinn: Hilmir Snær hefur aldrei leikið á því áður og Þórunn hannar þar leikmynd í fyrsta sinn.