Kaupþing banki spáir því að fasteignaverð hækki að jafnaði um eitt prósent á næsta ári og um átta prósent árið eftir.
Horfur á fasteignamarkaði hafa að mörgu leyti batnað frá því í júlí segir greiningardeild Kaupþings, en þá birti deildin síðast yfirlit yfir markaðinn.
„Framvinda á fasteignamarkaði á næstu tólf mánuðum veltur þó að töluvert miklu leyti af þróun efnahagsmála, þá einkum atvinnuástandi, og því framboði sem nú er í pípunum," segir deildin í úttekt sem kynnt var í gærmorgun. Þar kemur fram að í júlí hafi velta á fasteignamarkaði verið á hraðri niðurleið, en nú virðist sem samdrátturinn hafi verið að ganga til baka og veltan sé aftur að leita að meðaltali. „Launahækkanir og fólksfjölgun virðast hafa unnið markaðinum í hag og að einhverju leyti mætt hækkun vaxta."
Samkvæmt spálíkani greiningardeildar Kaupþings hækkar íbúðaverð að meðaltali um eitt prósent á árinu 2007 og um átta prósent árið 2008. Í líkaninu er tekið mið af þróun kaupmáttar, fjármagnskostnaðar og framboðs íbúðarhúsnæðis á næstu misserum.
„Greiningardeild telur að kaupmáttur muni aukast umtalsvert meira en gert var ráð fyrir í síðustu spá vegna fyrirsjáanlegra lækkana matarskatta á fyrri hluta næsta árs sem hægja mun á verðbólgu. Jafnframt er gert ráð fyrir að framboðsaukning verði engin á næsta ári og að framboð nýrra fasteigna muni dragast saman um 5 prósent árið 2008."