Útvarpsleikritið Tímaflakk með þá Bjarna „töframann“ Baldvinsson, Eyvind Karlsson og Þórhall Þórhallsson í aðalhlutverkum hefur göngu sína á Rás 2 í dag.
Í Tímaflakki er fylgst með þeim félögum þegar þeir finna tímavél og lenda í ýmsum ævintýrum á ferðalögum sínum um óravíddir tímans.
Bjarni, Eyvindur og Þórhallur hafa getið sér gott orð í grínheiminum og hafa allir reynslu af uppistandi og útvarpsstörfum. Útvarpsþátturinn verður fluttur í tvennu lagi á hverjum fimmtudegi, fyrri hlutinn klukkan 8.15 í Morgunútvarpi Rásar 2 og sá seinni klukkan 9.15 í þættinum Broti úr degi.