Jón Steinar segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að ákvörðun ríkisstjórnar og Alþingis um að afnema launahækkanir sem kjaradómur úrskurðaði dómurum hafi verið óábyrg og vanhugsuð aðgerð. Hann segir að með þessu hafi verið vikið frá öllum sjónarmiðum um að dómstólar skyldu vera óháðir framkvæmda- og löggjafarvaldinu, þar á meðal um laun sín.
Jón Steinar segir það hins vegar erfitt fyrir dómara að leita réttar síns með málsókn þar sem þá blasti við stjórnskipulegur vandi. Í fyrsta lagi væru allir fastskipaðir dómarar vanhæfir til að fjalla um málið. Í öðru lagi ættu ráðherrar og forseti erfitt með að skipa aðra dómara í þeirra stað þar sem þeir taka sjálfir laun eftir ákvörðunum kjaradóms líkt og dómararnir. Loks væri óheppilegt að skipa starfandi lögmenn sem dómara í málinu þar sem þeir eiga eftir að flytja mál fyrir sömu dómurum og eiga hagsmuna að gæta í málarekstrii vegna kjaradóms.
Dómarafélag Íslands ákvað í síðustu viku að bíða með málssókn en óska þess í stað viðræðna við stjórnvöld um bætur vegna launamissis dómara. Í fréttum RÚV um helgina var hins vegar greint frá því að Guðjón St. Marteinsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur íhugi málssókn.