Fyrrum heimsmeistarinn Michael Schumacher telur fjögur keppnislið eiga möguleika á heimsmeistaratitlinum í Formúlu 1 á komandi keppnistímabili. Hann hefur auðvitað fulla trú á sínum mönnum í Ferrari, en telur að auk þess verði Renault, Honda og McLaren í baráttunni um titilinn.
"Ég hef trú á því að þetta verði 3-4 lið sem berjast um sigurinn og ég er nokkuð viss um að við hjá Ferrari verðum í þessum pakka. Ég ætla nú ekki að spá okkur sigri, en við verðum í baráttunni," sagði Schumacher og bætti við að allt annað væri uppi á teningnum hjá liði Ferrari nú en í fyrra.
"Okkur hefur gengið mjög vel á æfingum í allan vetur öfugt við í fyrra og það er allt annað að fara inn í nýtt tímabil þegar gengur vel," sagði Þjóðverjinn. Keppnistímabilið í Formúlu 1 hefst þann 12. næsta mánaðar þegar keppt verður í Bahrein.