Úkraínski framherjinn Andriy Shevchenko tilkynnir forráðamönnum AC Milan á morgun hvort hann ætli sér að framlengja samning sinn við félagið eða ganga til liðs við Englandsmeistara Chelsea. Félagi hann Gennaro Gattuso ætlar að gera sitt til að reyna að sannfæra framherjann sterka um að vera áfram í Mílanó.
Shevchenko hefur sagt að eina ástæðan fyrir því að hann sé að hugsa um að fara frá Ítalíu sé fjölskyldan. "Ég vona sannarlega að hann verði áfram hjá okkur, " sagði Gattuso. "Ég held samt að við verðum að ræða beint við konuna hans frekar en hann. Það er hún sem þarf að sannfæra," sagði Gattuso, sem nú er að undirbúa sig fyrir HM með landsliði Ítala.