Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands dæmdur í eins mánaðar fangelsi og til greiðslu 250 þúsund króna fyrir ölvunarakstur og fyrir að framvísa ökuskírteini annars manns þegar lögreglan hafði afskipti af honum. Þá var hann jafnfram sviptur ökuréttindum í fimm ár.
Maðurinn var gripinn ölvaður undir stýri og án ökuskírteinis í Hveradalabrekku í ágúst síðastliðnum. Við ákvörðun refsingar var horft til þess maðurinn hafði á síðustu níu árum verið sviptur ökurétti fimm sinnum og þar af síðast í mars á þessu ári í þrjú ár. Segir í dómi að ákærði virðist ekki láta segjast þrátt fyrir að hafa ítrekað verið sviptur ökurétti og halda uppteknum hætti við.