Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody´s hefur hækkað lánshæfismat stóru íslensku bankanna þriggja og gefur þeim nú öllum bestu einkunn. Þetta er gert í samræmi við breytta aðferðafræði fyrirtækisins. Hástökkvarinn er Landsbankinn.
Glitnir fer úr fjórða sæti í það fyrsta, sömuleiðis Kaupþing. Landsbankinn er hástökkvarinn, fer úr fimmta sæti í það fyrsta.
Lánshæfismatið er Aaa fyrir alla bankana. Byggt er á svokallaðri JDA aðferðafræði þar sem metnir eru fjórir möguleikar hvað varðar utanaðkomandi stuðning við bankanna. Stuðningur fyrirtækja eða hópa sem eiga í samstarfi við bankanna, stuðningur frá stjórnvöldum eða kerfisbundinn stuðningur.
Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir þetta breytta mat hafa áhrif á skuldabréfaútgáfu bankanna og innlán heima og erlendis. Þetta segir hann styrkja stöðu bankanna í heild sinni. Hann leggur þó áherslu á að Moody´s sé að breyta aðferðarfræði sinni. Teknar hafi verið ákvarðanir í morgun sem varði öll Norðurlöndin.
Halldór segir eftirtektarvert að íslensku bankarnir þrír séu með besta mat sem hægt sé að fá hjá Moody´s, það sama og Den Danske Bank og Den Norske Bank, allir sterkustu bankar Norðurlandanna.
Halldór segir að allt sem stuðli að styrk íslensku bankanna og betra mati á þeim sé til þess fallið að lækka fjármögnunarkostnað þeirra. Allir viðskiptavinir eigi að koma til með að njóta þess þegar fram líði stundir.