Bítlatónlist sem Tryggvi Jónsson keypti á geisladiskum, var skilin eftir í Thee Viking skemmtibátnum og því ekki til einkanota Tryggva, eins og honum er gefið að sök. Þetta sagði Ragnar B. Agnarsson leiksstjóri og æskuvinur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við yfirheyrslur í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Hann sagðist hafa verið með Tryggva í að minnsta kosti eitt sinn þegar Tryggvi keypti töluvert magn geisladiska og þeir hafi verið notaðir í bátnum. Hann nefndi sérstaklega Bítlatónlist sem var keypt var hafi verið spiluð seinna í bátnum. Tryggva er gefinn að sök fjárdráttur í 19. ákærulið þar sem hann er meðal annars sakaður um geisladiskakaup til einkanota, sem greitt var fyrir með kreditkorti sem Baugur borgaði.
Einar Þórisson innkaupastjóri Aðfanga var einnig yfirheyrður í morgun. Hann var spurður út í kreditreikning frá Nordica og lýsti samskiptum við Jón Gerald Sullenberger vegna Aðfanga.
Þá var Gunnar Snævar Sigurðsson framkvæmdastjóri Baugur Group í Bretlandi yfirheyrður. Hann var fjármálastjóri Baugs frá júlí 2003 til júlí 2004. Hann var spurður út í uppgjör á American Express korti Tryggva sem Baugur greiddi fyrir. Hann sagði uppgjörið hafa verið teiknað upp af þriðja aðila, sem hann mundi ekki hver var.
Yfirheyrslur halda áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í Baugsmálinu í dag. Jónína Benediktsdóttir er ein vitna sem stígur í vitnastúku, en hún þurfti frá að hverfa í gær þegar yfirheyrslur yfir Arnari Jenssyni, fyrrum aðstoðaryfirlögregluþjóni í efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, drógust á langinn.