Hreinn Loftsson og Jón Ásgeir Jóhannesson hlógu að Davíð Oddssyni fyrrverandi forsætisráðherra fyrir að trúa að álagning á vörur frá Baugi væri lægri en raun var. Þetta sagði Jónína Benediktsdóttir að hefði átt sér stað eftir fund þremenninganna í Stjórnarráðinu. Viðtal við Jónínu fylgir fréttinni.
Í yfirheyrslum í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi sagði Jónína einnig að Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins hafi bent henni á að segja Jóni Gerald Sullenberger að tala við Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttalögmann. Jón Gerald hafi verið hikandi, hann hafi þekkt tengsl Tryggva Jónssonar og Hreins Loftssonar við nánast alla sem einhverju máli skipta í landinu.
Þá sagði Jónína alveg ljóst að feðgarnir Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson hafi átt bátana á Flórída með Jóni Gerald.
Viðtal við Jónínu Benediktsdóttur má sjá hér.
Í viðtalinu segir Jónína meðal annars að hún hafi haft áhyggjur af af tengslum Hreins Loftssonar og Tryggva Jónssonar við Davíð Oddsson. Á þeim tíma hafi hún og Jón Gerald haldið að málið væri það stórt og þess eðlis að það hefði ekki möguleika í dómskerfinu hér á landi.
Styrmir Gunnarsson hafi bent á Jón Steinar Gunnlaugsson, en hafi ekki talað við Davíð. Jónína reyndi hins vegar sjálf að ræða málið við Davíð, meðal annars með því að senda honum bréf sem hún fékk endursent. Hún hafi hins vegar varað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur við því sem væri að gerast í viðskiptamálum Baugs.
Þá sagði hún að Jón Ásgeir og Hreinn hefðu komið hlæjandi til baka eftir fundinn með Davíð og Orra Haukssyni aðstoðarmanni hans í Stjórnarráðinu þar sem Davíð hefði trúað því að álagning á vörur Baugs væri átta prósent. Jónína gat ekki fullyrt hversu há álagningin væri, en sagði álagninguna vera tugi prósenta.