Helstu fjármálamarkaðir á Vesturlöndum og í Asíu hafa að mestu jafnað sig eftir dýfu síðastliðna tvo daga. Gengi hlutabréfa hækkaði nokkuð á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær og í Japan í dag. Íslenski markaðurinn fór ekki varhluta af lækkanaferlinu en Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,13 prósent í gær.
Nokkrir þættir skýra lækkanirnar vestanhafs í vikubyrjun sem leiddi út til alþjóðlegra markaða. Í fyrsta lagi jukust vanskil á fasteignalánamarkaði umtalsvert auk þess sem samdráttur var í smásöluverslun á sama tíma. Vanskilin voru mest á þeim lánamarkaði sem veitir þeim einstaklingum í Bandaríkjunum lán sem eiga sér slæma greiðslusögu og hafa lent á svörtum lista hjá lánastofnunum.
Nikkei-vísitalan í Japan hækkaði um 1,1 prósent við lokun markaða í gær. Þetta er talsverður viðsnúngur frá gærdeginum en þá féll hún um tæp þrjú prósent. FTSE 100-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er dags hækkað um 1,37 prósent. CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur hækkað um 1,5 prósent en DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur hækkað um 1,7 prósent. Vísitölurnar lækkuðu talsvert í gær eða um tæp tvö prósent.
Greinendur eru á einu máli að markaðirnir séu viðkvæmir fyrir minnstu hreyfing.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,80 prósentustig í Kauphöll Íslands það sem af er dags og stendur vísitalan nú í 7.389 stigum. Gengi hlutabréfa í flestum fyrirtækjum í Úrvalsvísitölunni hefur hækkað í dag að Actavis undanskildu. Mest hefur gengi bréfa hækkað í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum, eða um 2,15 prósent.