Síðan er svokölluð tenglasíða, en þar geta krakkar fundið alls kyns tölvuleiki sem kalla má dúkkulísuleiki og ganga út á að klæða alls kyns fígúrur í föt. Hugmyndin að síðunni kviknaði hjá Ingu Maríu árið 1998 þegar hún var heima við í veikindafríi. „Þetta byrjaði þegar ég var að leita að tölvuleikjum á Netinu fyrir litla frænku mína, sem er reyndar ekki lítil lengur," segir Inga María í samtali við Vísi. Í tekjublaði Mannlífs er greint frá því að Inga María hafi tvær milljónir króna í mánaðartekjur. Hún vildi ekki fara nánar út í þá sálma en segir þó að þetta sé góð tekjulind. „Þetta gengur alltaf betur og betur og það er hægt að hafa mjög góðar tekjur af þessu," segir Inga María en auglýsingar á síðunni eru í gegnum Google AdWords.
Það sem gerir gæfumuninn fyrir Ingu Maríu þegar kemur að tekjuöflun í gegnum síðuna er sú staðreynd að síðan er gríðarlega vinsæl en heimsóknir á síðuna í hverjum mánuði telja um sjö milljónir og flettingar eru um 40 milljónir, að sögn Ingu. „Þegar svona margir fara í gegn hjá manni þá safnast þetta saman, en ég fæ borgað í hvert skipti sem einhver gestur les auglýsingu á síðunni." Inga María segir að í dag séu fjölmargar síður á Netinu í svipuðum dúr og hennar. „En ég var fyrst með þetta og nýt góðs af því." Umstangið í kringum síðuna var í fyrstu bara áhugamál hjá Ingu Maríu en í dag er þetta orðin hennar aðalvinna. Hún þarf að uppfæra hana reglulega og bæta við nýjum leikjum á hverjum degi. „Ég er í hálfu starfi á bókasafninu á Ísafirði því ég get eiginlega ekki hugsað mér að sitja ein fyrir framan tölvuna allan daginn."

Hér má sjá heimasíðu Ingu Maríu.