Breski ökuþórinn Lewis Hamilton tók í morgun stórt skref í áttina að því að verða fyrsti nýliðinn til að verða heimsmeistari í Formúlu 1 þegar hann sigraði í Japanskappakstrinum.
McLaren-maðurinn var á ráspól í nótt og náði að landa sigrinum í ausandi rigningunni í Japan, en á sama tíma ók félagi hans og helsti keppinautur Fernando Alonso út af brautinni og þurfti að hætta keppni.
Hamilton er því með 12 stiga forystu á heimsmeistarann Alonso þegar tvær keppnir og 20 stig eru eftir í pottinum - aðeins á eftir að keppa í Kína og Brasilíu.
Hekki Kovalainen hjá Renault varð í öðru sæti í morgun og landi hans Kimi Raikkönen hjá Ferrari varð þriðji.
Hamilton hélt ró sinni og sýndi fádæma yfirvegun þó hann væri þarna að keppa í sinni fyrstu alvöru rigningarkeppni og úrslitin í dag þýða að hann verður heimsmeistari í Kínakappakstrinum ef hann kemur á undan Alonso í mark eða missir ekki meira en stig í hendur hans.
Staðan í í keppni ökuþóra:
1. Lewis Hamilton - McLaren 107 stig
2. Fernando Alonso - McLaren - 95
3. Kimi Raikkönen - Ferrari 90
4. Felipe Massa - Ferrari 80
5. Nick Heidfeld - BMW 56