Aganefnd HSÍ hefur dæmt þrjá leikmenn ÍBV í mislöng leikbönn og áminnt Rúnar Sigtryggsson, þjálfara Akureyrar.
Nikolaj Kulikov og Grétar Þór Eyþórsson fengu eins leiks bann vegna útilokunar og Zivilas Grieze þriggja leikja bann vegna brottvikningar eða „krossins" sem hann fékk að líta í leik ÍBV og Aftureldingar á föstudaginn síðastliðinn.
Afturelding vann umræddan leik, 42-29, og sagði Bjarki Sigurðsson, þjálfari Mosfellinga eftirfarandi í samtali við Fréttablaðið eftir leik:
„Ég spyr bara hvar þessum mönnum var kennt að spila handbolta."
Þjálfari ÍBV, Savukynas Gintaras, var afar ósáttur við dómgæsluna í leiknum.
Þá var Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar, áminntur vegna ummæla sinna um dómara leiks Akureyrar og Hauka í síðustu viku.
Hann sagði eftirfarandi um dómgæsluna í samtali við Fréttablaðið eftir leik:
„Þáttur dómaranna er ótrúlegur hérna. Ég er á því að Haukarnir fái ítrekað endurtekin tækifæri í sókninni upp úr þurru undir lokin. Ég vona að þessir dómarar verði settir niður um deild, það er ekki hægt að spila undir þessu."