Fjöldi matargesta: 4
Ávaxtafyllt önd með sósu
Öndin er látin þiðna í ísskáp, innmatur og háls notað í soðið.
Epli, appelsína, sveskjur og vínber sett í skál, púrtvíni hellt yfir og hrært, plast breitt yfir og látið standa í kæli til næsta dags. Þá eru ávextirnir teknir upp úr og látið drjúpa af þeim.
Laukurinn er brúnaður í helmingnum af smjörinu í þykkbotna potti. Ávöxtunum bætt út í, látið krauma í um 5 mín. og síðan er brauðinu hrært saman við ásamt 3/4 af púrtvínsleginum, pipar og salti. Hrært vel og síðan er potturinn tekinn af hitanum og fyllingin látin kólna ögn.
Ofninn hitaður í 225 gráður og andasoðið hitað. Fyllingin sett í öndina og saumað fyrir opin eða þeim lokað með kjötprjónum. Öndin krydduð með pipar og salti, lögð með bringuna niður á grind sem höfð er yfir steikarfati eða ofnskúffu og sjóðheitu soðinu hellt í fatið. Álpappír breiddur þétt yfir og öndin sett í ofninn. Eftir um 1 klst og 15 mín. er fatið tekið út og álpappírinn fjarlægður. Öndin pensluð með afganginum af púrtvíns-leginum, blönduðum sojasósu.
Soðinu hellt úr steikarfatinu og öndin sett aftur í ofninn með bringuna upp. Pensluð aftur eftir 10-15 mínútur og síðan steikt í 15-20 mínútur í viðbót.
Öndin er tekin út og látin standa í 10-15 mínútur áður en hún er borin fram. Á meðan öndin er að brúnast er sósan búin til. Mestöll fitan er fleytt ofan af og soðið mælt. Ef það er meira en 6-700 ml er það sett í pott og soðið rösklega niður smástund. Afgangurinn af smjörinu brætt í potti, hveitinu hrært saman við og látið krauma smástund og síðan er soðinu hrært saman við smátt og smátt og sósan bökuð upp. Látin malla við vægan hita í um 10 mín. og síðan smökkuð til.
Uppskrift af Nóatún.is
- 1 Stk. Önd
- 800 ml. Andarsoð , (OSCAR)
- 1 Stk. epli , afhýtt, kjarnstungið og skorið í bita
- 1 Stk. appelsína , afhýdd og skorin í bita
- 75 g sveskjur , steinlausar, skornar í bita
- 50 g vínber , steinlaus eða steinhreinsuð
- 100 ml. púrtvín , dökkt
- 50 g smjör
- 1 Stk. laukur , saxaður
- 1 Msk. sojasósa
- 100 g franskbrauð , skorpulaust, skorið í teninga
- pipar , nýmalaður
- salt
- 2 Msk. hveiti