Breska lögreglan telur líklegast að auðmaðurinn Christopher Foster hafi myrt konu sína og dóttur, skotið húsdýr sín og svo kveikt í sveitasetri þeirra og framið sjálfsmorð.
Þrír hestar og fjórir hundar voru skotnir til bana í útihúsunum áður en kveikt var í þeim.
Lögreglan hefur undir höndum myndband úr öryggismyndavél á sveitasetrinu. Þar sést Foster koma með riffil í hönd út úr brennandi hesthúsinu og hlaupa að íbúðarhúsinu.
Þrjú lík fundust í brunarústunum. Aðeins hafa verið borin kennsl á lík eiginkonunnar en talið víst að hin séu af Foster og fimmtán ára dóttur þeirra. Öll voru með skotsár á höfði.
Fyrirtæki Fosters var til gjaldþrotaskipta og skuldir hans nálguðust að vera tvær milljónir sterlingspunda.
Eldar voru kveiktir á þrem stöðum í húsinu nokkrum klukkustundum eftir að Foster fjölskyldan kom heim úr grillveislu hjá nágranna.