Hún hefur sterkar skoðanir, á auðvelt með að gera málamiðlanir, er náin Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs og er oft með krosslagðar hendur í upphafi funda. Svona er Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, lýst í skýrslu sendiherra Bandaríkjanna hér á landi til Condoleezzu Rice, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Skýrsluna sendi sendiherrann Carol van Voorst í byrjun apríl 2008 en henni var greinlega ætlað að undirbúa Rice undir komu Ingibjargar til Washington. Ingibjörg fór í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna 10.-12. apríl 2008 og til stóð að hún og Rice myndu eiga saman fund. Í skýrslunni fer van Voorst ítarlega yfir bakgrunn Ingibjargar og stöðu hennar sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.