Bandaríkjamenn töldu ljóst í október 2008 að veikindi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þáverandi utanríkisráðherra væru alvarlegri en gefið væri upp opinberlega og að óljóst væri hve stórt hlutverk hún gæti leikið í baráttunni við efnahagshrunið. Þetta kemur fram í skeyti frá Carol Van Voorst, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna hér á landi. Þá segir að veikindi Ingibjargar og Grétars Márs Sigurðssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu hafi haft mikil áhrif á viðbrögð íslenskra stjórnvalda í hruninu sem hún segir hafa einkennst af „undarlegu sinnuleysi."
„Þrátt fyrir hinar hræðilegu fréttir sem dunið hafa yfir íslenska borgara hefur ríkisstjórnin sýnt undarlegt sinnuleysi, auk þess sem hún hefur verið treg til þess að biðja um hjálp frá löndum utan Norðurlandanna sem gætu hugsanlega hjálpað," segir meðal annars. Van Voorst segir að Árni Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra hefði til dæmis ekki einusinni farið fram á að fá að hitta fulltrúa bandaríska fjármálaráðuneytisins þegar hann var á ferð í Washington skömmu áður, „nema fyrir þrýsting frá þessu sendiráði," segir ennfremur og því bætt við að búist sé við því að haft verði samband við bandarísk stjórnvöld innan tíðar með það að markmiði að óska eftir fjárhagsaðstoð.
Van Voorst segist telja að hluti skýringarinnar á þessari klaufalegu hegðun stjórnvalda sé hve erfitt hafi verið fyrir stjórnvöld að afla upplýsinga frá fjármálastofnunum hér á landi og erlendis um stöðuna. „Hluti skýringarinnar gæti verið að Íslendingar hiki við að viðurkenna fyrir útlendingum hversu illa þeir séu í raun og veru staddir; og hluti gæti skýrst af átökum innan ríkisstjórnarinnar og átökum hennar við seðlabanka Davíðs Oddsonar.
Önnur skýring, að mati Van Voorst, voru síðan veikindi helstu ráðamanna í utanríkisráðuneytinu á þessum viðkvæmu tímum, en Grétar Már barðist við krabbamein á sama tíma og Ingibjörg. Grétar Már lést árið 2009.
„Þrátt fyrir að þessi klóki, valdamikli og einbeitti leiðtogi vilji greinilega greinilega taka þátt í því að stýra þjóðinni út úr þessari kreppu, þá er það óljóst hve stórt hlutverk hún mun spila í ljósi heilsu hennar.“