Ógnir og andvaka Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 13. janúar 2011 05:30 Bókin lúrir á náttborðinu mínu. Augun á mynd bókarkápunnar elta mig um herbergið meðan ég geng frá tauinu í skúffurnar og hrollurinn hrýslast um mig. Ég er að lesa spennandi sögu. Svo spennandi að ég get varla beðið eftir að komast í lesturinn að kvöldi dags og hugsa um hana allan daginn. Margir í kringum mig eru búnir að lesa söguna og ég þarf að halda fyrir eyrun svo ég heyri ekki lýsingar á örlögum sögupersónanna. Þá væri spennan úti. Nánast allir sem ég heyri til eru yfir sig ánægðir með söguna. Sagan gerist hér á Íslandi og er ekki bara spennandi heldur líka draugaleg, hræðileg og hryllileg. Ég heyri fólk lýsa hvernig hræðslan náði heljartökum á því við lesturinn svo það gat hvorki hreyft legg né lið. Einhverjir gátu ekki lagt bókina frá sér og lásu hana næturlangt í einum rykk, stjarfir af ótta. Mættu svo vansvefta og hvekktir eftir lesturinn til vinnu sinnar, með ónot um sig allan. Aðrir urðu svo hræddir að þeir þurftu að taka sér löng hlé á lestrinum til að jafna sig áður en þeir gátu haldið áfram. Ég heyri fólk lýsa hvernig það þorði ekki að lesa söguna ef það var eitt heima. Þorði ekki að lesa þegar tekið var að rökkva, þorði ekki að lesa nema á sunnudögum, þorði ekki að lesa nema hafa útvarpið á og stillt á Létt-Bylgjuna. Fólk lýsir ógnþrungnum andvökunóttum eftir lestur sögunnar, nöguðum nöglum upp í kviku og beig sem fylgir því eins og skugginn. Sjálf er ég ekki komin nema á blaðsíðu 53 og spennan rétt tekin að byggjast upp um það sem koma skal. Þrátt fyrir það er ég orðin logandi hrædd eftir allar lýsingarnar. Svo logandi hrædd að ég held niðri í mér andanum þegar ég fletti síðu. Það er merkilegt hvað maður lætur almannaróm spila með sig. Skjálfhent geng ég frá plöggunum inn í skápana og finn augnaráðið af bókarkápunni hvíla þungt á bakinu. Ég opnaði bókina ekki í gærkvöldi, klukkan var orðin svo margt þegar ég fór í holu að ég kom mér ekki til þess. Ég opnaði hana ekki heldur kvöldið þar áður, gnauðið í vindinum úti var eitthvað svo ónotalegt. Ég er að hugsa um að bíða fram á sunnudaginn með lesturinn og fara með bænirnar mínar þangað til. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Skjáfíkn - vísindi eða trú? Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Listin að styðja en ekki stýra Árni Sigurðsson Skoðun
Bókin lúrir á náttborðinu mínu. Augun á mynd bókarkápunnar elta mig um herbergið meðan ég geng frá tauinu í skúffurnar og hrollurinn hrýslast um mig. Ég er að lesa spennandi sögu. Svo spennandi að ég get varla beðið eftir að komast í lesturinn að kvöldi dags og hugsa um hana allan daginn. Margir í kringum mig eru búnir að lesa söguna og ég þarf að halda fyrir eyrun svo ég heyri ekki lýsingar á örlögum sögupersónanna. Þá væri spennan úti. Nánast allir sem ég heyri til eru yfir sig ánægðir með söguna. Sagan gerist hér á Íslandi og er ekki bara spennandi heldur líka draugaleg, hræðileg og hryllileg. Ég heyri fólk lýsa hvernig hræðslan náði heljartökum á því við lesturinn svo það gat hvorki hreyft legg né lið. Einhverjir gátu ekki lagt bókina frá sér og lásu hana næturlangt í einum rykk, stjarfir af ótta. Mættu svo vansvefta og hvekktir eftir lesturinn til vinnu sinnar, með ónot um sig allan. Aðrir urðu svo hræddir að þeir þurftu að taka sér löng hlé á lestrinum til að jafna sig áður en þeir gátu haldið áfram. Ég heyri fólk lýsa hvernig það þorði ekki að lesa söguna ef það var eitt heima. Þorði ekki að lesa þegar tekið var að rökkva, þorði ekki að lesa nema á sunnudögum, þorði ekki að lesa nema hafa útvarpið á og stillt á Létt-Bylgjuna. Fólk lýsir ógnþrungnum andvökunóttum eftir lestur sögunnar, nöguðum nöglum upp í kviku og beig sem fylgir því eins og skugginn. Sjálf er ég ekki komin nema á blaðsíðu 53 og spennan rétt tekin að byggjast upp um það sem koma skal. Þrátt fyrir það er ég orðin logandi hrædd eftir allar lýsingarnar. Svo logandi hrædd að ég held niðri í mér andanum þegar ég fletti síðu. Það er merkilegt hvað maður lætur almannaróm spila með sig. Skjálfhent geng ég frá plöggunum inn í skápana og finn augnaráðið af bókarkápunni hvíla þungt á bakinu. Ég opnaði bókina ekki í gærkvöldi, klukkan var orðin svo margt þegar ég fór í holu að ég kom mér ekki til þess. Ég opnaði hana ekki heldur kvöldið þar áður, gnauðið í vindinum úti var eitthvað svo ónotalegt. Ég er að hugsa um að bíða fram á sunnudaginn með lesturinn og fara með bænirnar mínar þangað til.