Matur

Helgarmaturinn - Matti gefur góða Eurovision-uppskrift

Matthías Matthíasson söngvari með meiru gefur okkur uppskrift að dýrindis laxi með góðu salati sem er tilvalin að prófa þessa Eurovision-helgi.

Hráefni:

3 hvítlauksrif

2 ferskir rósmarínstönglar

ferskt laxaflak

1 matskeið af ólífuolíu

2 klípur af góðu salti

pipar eftir smekk

1 sítróna

1 meðalstór sæt kartafla

Aðferð:

Sæt kartafla heil og meðalstór sett í ofn á 200 gráðum í klukkutíma, borin fram skorin í 3ja cm þykkar sneiðar með smjöri og smá Maldon-salti.

Leggið laxinn með roðið niður á álpappír og skvettið örlítilli ólífuolíu yfir, setjið því næst hvítlauk og rósmarín yfir, vel saxað.

Breiðið frekar þunnt skornar sítrónusneiðar yfir laxinn. Saltið og piprið.

Grillist í u.þ.b. 12 mínútur, eða þar til laxinn er eldaður í gegn. Fínt er að setja hann inn með kartöflunni síðustu 10 mínúturnar.

Með þessum rétti er líka tilvalið að ofnbaka ferskt grænmeti. T.d. Gulrætur, Kúrbít eða hvað sem manni dettur í hug. Þá dreifið þið ólífuolíu yfir, saltið og piprið og setjið í ofninn með laxinum í u.þ.b. 35 mínútur, fer eftir hvað þið viljið hafa grænmetið stökkt.

Sumarlegur, hollur og umfram allt bragðgóður réttur sem er auðvelt að búa til.

Hvítvín eða bara íslenska vatnið steinliggur svo með þessu.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.