Veiði

Norðurá tvöfalt betri; Blanda þrefaldar veiðina

Blanda þrefaldar sig: Dammurinn hefur gefið marga stórlaxa í byrjun tímabilsins.
Blanda þrefaldar sig: Dammurinn hefur gefið marga stórlaxa í byrjun tímabilsins. Mynd/Lax-á.is
Meistari Þorsteinn Þorsteinsson á Skálpastöðum hefur sent frá sér fyrstu veiðitölur sumarsins, og þó veiði sé aðeins hafin í fáum laxveiðiám þá eru tölurnar engu að síður allrar athygli verðar.

„Þetta sumar fer vel af stað fyrir þá, sem byrjað hafa heyskap", segir Þorsteinn og heldur áfram: „Veiðimenn þrá aftur á móti dálitla rigningu. Þó svo að snjór sé meiri í fjöllum en mörg undanfarin vor, þá eru ár nú vatnslitlar, að minnsta kosti á vesturhluta landsins. Samt er laxinn mættur til leiks."

Tölur Þorsteins frá Blöndu og Norðurá eru athyglisverðar. Norðurá er komin með 57 laxa á land en þeir voru 26 á sama tíma í fyrra. Blanda hefur bætt sig verulega frá fyrra ári með 47 laxa á þurru en þeir voru aðeins sextán á sama tíma í fyrra.

Þorsteinn greinir frá því veiði hófst í Þverá í Borgarfirði 13. júní og náðust fjórir laxar fyrsta daginn. Kjarrá verður svo opnuð á morgun.

„Þetta verður að teljast ágæt byrjun á veiðisumrinu, þó ekki nái hún þeim metum, sem sett voru sumarið 2010. Næstu veiðitölur birtast svo hér að kvöldi þess 20. júní, og þá úr mun fleiri ám en nú", segir Þorsteinn.

[email protected]






×