Sætustu stelpuna á Bessastaðaballið Friðrika Benónýsdóttir skrifar 8. mars 2012 11:00 Efnt hefur verið til nokkurs konar raunveruleikaþáttar þar sem ræddir eru kostir og lestir hugsanlegra forsetaframbjóðenda. Enginn af kandídötunum hefur reyndar skráð sig til leiks í þættinum, en þeir eru engu að síður vegnir og metnir, gefnar einkunnir og stimplaðir hæfir eða óhæfir. Helsta niðurstaða dómara þáttarins hingað til er að það sé kominn tími á að fá konu í forsetaembættið. Á því hvaða kona það á að vera eru skiptar skoðanir en um eitt eru allir sammála: Hún verður að vera frambærileg. Hún verður að vera hugguleg. Bjóða af sér góðan þokka. Kunna að haga sér í fínum selskap. Tala sem flest erlend tungumál. Hún má ekki hafa verið umdeild. Fólkið verður að vita hver hún er. Helst á hún að hafa reynslu úr sjónvarpi og góðan skjáþokka. Hverjar skoðanir hennar eru og hvaða mann hún hefur að geyma bak við hina frambærilegu framhlið er algjört aukaatriði. Þetta eru um það bil sömu skilyrði og gjafvaxta heimasætur á Viktoríutímanum þurftu að uppfylla áður en þær voru kynntar í samkvæmislífinu í þeim tilgangi að þær næðu sér í mann. Íslenska þjóðin virðist líta á forsetann sem barnið sitt og auðvitað vill ekkert foreldri að blessað barnið verði því til skammar. Og stelpur eru stilltari, eins og við vitum öll, og láta betur að stjórn. Engar slíkar kröfur virðast gerðar til þeirra karla sem hinir sjálfskipuðu dómarar í raunveruleikaþættinum Framboð til forsetaembættis hafa nefnt til leiks. Þau orð sem oftast heyrast nefnd í sambandi við þá eru: Vandaður, víðsýnn og hefur yfirsýn yfir alþjóðasamfélagið. Reynsla af opinberum erindrekstri er þar líka ofarlega á blaði, ef þau störf hafa ekki verið á vegum stjórnmálaflokks. En enginn hefur minnst á frambærileika eða almenna mannasiði í opinberum veislum. Menntaðir karlar eru kannski bara frambærilegir frá náttúrunnar hendi og óþarfi að nefna slíkan tittlingaskít í sambandi við þá. Spurningin sem þessi umræða vekur er þessi: Er forsetaembættið bara til skrauts? Hásæti þar sem vel er við hæfi að tylla sætri vel uppalinni konu sem engin hætta er á að geri nokkurn usla? Sem getur mætt í konungsbrúðkaup á skautbúningi og vitað í hvaða röð á að nota hnífapörin? Er krafan um konu sem forseta sprottin af þeirri þrá þjóðarinnar að eftir sextán ára setu dramadrottningar setjist í embættið lítil prinsessa sem treysta má að hafi vit á því að halda kjafti og vera sæt? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun
Efnt hefur verið til nokkurs konar raunveruleikaþáttar þar sem ræddir eru kostir og lestir hugsanlegra forsetaframbjóðenda. Enginn af kandídötunum hefur reyndar skráð sig til leiks í þættinum, en þeir eru engu að síður vegnir og metnir, gefnar einkunnir og stimplaðir hæfir eða óhæfir. Helsta niðurstaða dómara þáttarins hingað til er að það sé kominn tími á að fá konu í forsetaembættið. Á því hvaða kona það á að vera eru skiptar skoðanir en um eitt eru allir sammála: Hún verður að vera frambærileg. Hún verður að vera hugguleg. Bjóða af sér góðan þokka. Kunna að haga sér í fínum selskap. Tala sem flest erlend tungumál. Hún má ekki hafa verið umdeild. Fólkið verður að vita hver hún er. Helst á hún að hafa reynslu úr sjónvarpi og góðan skjáþokka. Hverjar skoðanir hennar eru og hvaða mann hún hefur að geyma bak við hina frambærilegu framhlið er algjört aukaatriði. Þetta eru um það bil sömu skilyrði og gjafvaxta heimasætur á Viktoríutímanum þurftu að uppfylla áður en þær voru kynntar í samkvæmislífinu í þeim tilgangi að þær næðu sér í mann. Íslenska þjóðin virðist líta á forsetann sem barnið sitt og auðvitað vill ekkert foreldri að blessað barnið verði því til skammar. Og stelpur eru stilltari, eins og við vitum öll, og láta betur að stjórn. Engar slíkar kröfur virðast gerðar til þeirra karla sem hinir sjálfskipuðu dómarar í raunveruleikaþættinum Framboð til forsetaembættis hafa nefnt til leiks. Þau orð sem oftast heyrast nefnd í sambandi við þá eru: Vandaður, víðsýnn og hefur yfirsýn yfir alþjóðasamfélagið. Reynsla af opinberum erindrekstri er þar líka ofarlega á blaði, ef þau störf hafa ekki verið á vegum stjórnmálaflokks. En enginn hefur minnst á frambærileika eða almenna mannasiði í opinberum veislum. Menntaðir karlar eru kannski bara frambærilegir frá náttúrunnar hendi og óþarfi að nefna slíkan tittlingaskít í sambandi við þá. Spurningin sem þessi umræða vekur er þessi: Er forsetaembættið bara til skrauts? Hásæti þar sem vel er við hæfi að tylla sætri vel uppalinni konu sem engin hætta er á að geri nokkurn usla? Sem getur mætt í konungsbrúðkaup á skautbúningi og vitað í hvaða röð á að nota hnífapörin? Er krafan um konu sem forseta sprottin af þeirri þrá þjóðarinnar að eftir sextán ára setu dramadrottningar setjist í embættið lítil prinsessa sem treysta má að hafi vit á því að halda kjafti og vera sæt?