Skólinn krefst þess að íslenskir umsækjendur hafi lokið átján einingum í dönsku í framhaldsskóla. Þó að dönskum skólum sé almennt frjálst að setja sín eigin inntökuskilyrði kannar íslenska menntamálaráðuneytið nú hvort um mismunun sé að ræða. Í samningum milli Norðurlandanna er miðað við að öll Norðurlandamál séu metin til jafns milli landanna.
Óvíst er hversu margir Íslendingar hafa þurft að hætta við að sækja nám í Danmörku vegna málsins, en samkvæmt upplýsingum frá íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn hafa sex námsmenn kvartað undan CBS vegna svipaðra mála. Þrír þeirra hafa kært ákvörðunina til menntamálaráðuneytisins.
María Ósk Bender er á meðal þeirra, en hún flutti út með fjölskyldu sína í sumar, í góðri trú um að hún fengi að hefja meistaranám í mannauðsstjórnun í CBS. Hún hafði fengið inni í skólanum en var svo beðin um að senda inn upplýsingar um námsferil í dönsku.
„Þá byrjaði ballið. Skólinn krafðist átján eininga í dönsku en níu einingar þarf til stúdentsprófs á Íslandi. Það er í raun einstakt að nokkrir hafi lokið átján einingum.“

„Þá hélt ég að ég væri orðin gulltryggð, og við fluttum út. Svo var ég búin að vera í skólanum í viku þegar ég fæ loks svar og þeir halda því til streitu að hægt sé að ná átján einingum á Íslandi.“
María hefur kært úrskurðinn til yfirstjórnar skólans, en er ekki bjartsýn á að það gangi eftir, því að annar Íslendingur hefur þegar fengið synjun og kært það til danskra menntamálayfirvalda.
María segir framhaldið í óvissu hjá fjölskyldunni, en heimför er ekki á döfinni.
„Það er ekki til umræðu. Við erum komin hér út og stelpurnar okkar eru byrjaðar á leikskóla. Nú ætla ég að leita að vinnu og skrá mig í fjarnám eftir áramót. Svo sjáum við til hvort rætist ekki úr málunum, en þetta blessast örugglega allt á endanum.“
Í svari frá íslenska menntamálaráðuneytinu segir að mál námsmannanna ættu að skýrast brátt.