Skerðingar á greiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega ganga ekki til baka nema í tengslum við heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Þetta kom fram í svari Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á alþingi í gær.
Birgir Þórarinsson, varaþingmaður Framsóknarflokks fyrir Sigurð Inga Þórhallsson, spurði hvenær þess væri að vænta að afnumin yrðu bráðabirgðaákvæði um að taka lífeyris skerði bætur almannatryggingar. Hann benti á að þótt tekjutenging skerðingar hefði ekki áhrif nema ef lífeyrisgreiðslur væru yfir 200 þúsund krónum á mánuði, þá væri þarna um að tefla upphæðir sem hefðu veruleg áhrif á kjör margra eldri borgara. Þeir hefðu í hruninu orðið fyrir meiri kjaraskerðingu en margir aðrir hópar.
Guðbjartur benti á að endurskoðun væri í gangi og hluti af því sem menn vildu ná fram væri að ávinningurinn af því að hafa greitt í lífeyrissjóð skilaði sér til eldri borgara og öryrkja.
„Við deilum ekki um það að það á að sjálfsögðu að tryggja að lækkanir til eldri borgara gangi til baka," sagði hann og kvað hugmyndirnar um breytingar á almannatryggingakerfinu ganga út á að ávinningurinn af lífeyrissjóðunum yrði sýnilegur. „Hvenær þetta gengur til baka hangir saman við heildarendurskoðunina." - óká
Innlent