„Samkvæmt því sem hann segir á að berstrípa ráðuneytið og steingelda það,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, um ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra.
Hann sagði fyrst í viðtali við Bændablaðið á dögunum að honum þætti umhverfisráðuneytið óþarft, og hann áréttaði það viðhorf í samtali við Sigurjón M. Egilsson í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Árni segir þessi ummæli sérkennileg, ekki síst í ljósi þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hafa báðir sagt að ekki stæði til að leggja ráðuneytið niður þegar það var fellt inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
Árni segir Sigurð Inga þó hafa tekið af öll tvímæli um viðhorf ríkisstjórnar með ummælum sínum í Sprengisandi í morgun, „það stendur ekki til að gera neitt gott í þessum málaflokki,“ segir hann áhyggjufullur.
„Skilaboðin núna er að þeim finnist þetta óþarfi,“ segir Árni og bætir við: „Þetta viðhorf er lengst aftur í torfkofana.“
Árni segir að ef málaflokkar eins og hlýnun jarðar, súrnun sjávar, loftmengun og fleira eigi sér enga málsvara innan ríkisstjórnarinnar, „þá er bara verið að gefa þau skilaboð að þeim sé skítsama,“ segir Árni ómyrkur í máli að lokum.

