Flugmaður Mýflugs sem lifði af flugslysið á Akureyri er enn til aðhlynningar á Sjúkrahúsinu á Akureyri en er ekki í lífshættu. Áætlun liggur fyrir um útskrift hans af sjúkrahúsinu, að sögn eiginkonu hans.
Flugmaðurinn sem lifði flugslysið af er talsvert slasaður og er á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri. Talið er nær kraftaverki líkast að maðurinn hafi lifað slysið af.
Slapp við beinbrot
Fréttastofa náði tali af konu hans í dag en hún var stödd hjá honum á sjúkrahúsinu þar sem honum er nú hjúkrað til heilsu. Hún sagði að hann væri enn slasaður og gert væri að meiðslum hans, en vildi ekki fara nanar út í þau. Fram hefur komið að maðurinn er óbrotinn. Kona hans sagði að læknar hefðu þegar gert áætlun um útskrift hans af sjúkrahúsinu en var ekki tilbúinn að greina frá því hvenær það yrði. Hvorki hún né maðurinn hennar myndu ræða við fjölmiðla um málið á næstunni. Bæði vegna aðstæðna og af virðingu við hina látnu. Af tillitssemi við fjölskyldu flugmannsins verður ekki greint frá nafni hans eða konu hans, að svo stöddu að minnsta kosti.
Hætti við lendingu
Ein af grundvallarspurningunum í tengslum við flugslysið sem er enn ósvarað er, hvað var vélin að gera á þessum slóðum, skömmu áður en slysið varð? En vélin hætti við lendingu á Akureyrarflugvelli skömmu fyrir slysið.
Starfsmenn Mýflugs verjast allra frétta og vísa á rannsóknarnefnd samgönguslysa. Sigurður B. Jónsson, flugöryggisfulltrúi Mýflugs, sagði í samtali við fréttastofu að ekki væri tímabært að vera með vangaveltur um það sem gerðist í aðdraganda slyssins. Hann vísaði á rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Þorkell Ágústsson hjá rannsóknarnefndinni sagði að þetta væri eitthvað sem rannsóknin yrði að leiða í ljós. Hann sagði að nefndin hefði aðeins lokið störfum á vettvangi. Hún ætti eftir að taka viðtöl við starfsmenn í flugturni og sjónarvotta.
Eins og sést á myndum sem teknar voru í dag hafa öll ummerki um slysið verið hreinsuð en flak vélarinnar var flutt í gærkvöldi og er nú til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.
