„Ég held að það hafi komið hérna um það bil fimmtán þúsund manns í fyrra, yfir sumartímann, þannig að þetta er hellings traffík,“ segir Helga Guðmundsdóttir, bóndi.
„Meira að segja kýrnar eru orðnar vanar heimsóknunum, því á veturnar tökum við líka á móti skólafólki,“ bætir gestrisni bóndinn við.
Ábúendur á Erpsstöðum eru hjónin Þorgrímur Einar Guðbjartsson, frá Kvennahóli á Fellsströnd í Dalasýslu og Helga Elínborg Guðmundsdóttir, frá Kvennabrekku í Miðdölum Dalasýslu. Þau eiga fimm börn, sem öll taka virkan þátt í búskapnum.

Á Erpsstöðum er einnig rekið rjómabú þar sem þau hjónin framleiða lífrænt ræktaðan ís, osta og skyrkonfekt sem var þróað og hannað í samvinnu við námskeið á vegum Listaháskóla Íslands, sem kallast Stefnumót hönnuða og bænda.
Skyrkonfektið frá Erpsstöðum hefur vakið mikla lukku.
„Grapevine gaf okkur og skyrkonfektinu verðlaun í fyrra fyrir vöru ársins, og varan var svo kynnt á HönnunarMars í fyrra,“ segir Helga að lokum.
„Þetta gengur ágætlega hjá okkur,“ segir hún létt í bragði.
Framleiðslan fer fram á býlinu sjálfu í 200 fermetra aðstöðu, sem ætluð er fyrir heimavinnslu afurða.