Það var raunar eitt fyrsta verk Hönnu Birnu Kristjándóttur sem ráðherra vegamála í fyrravor að skoða Teigsskóg og biðja um nýtt umhverfismat fyrir veg þar í gegn. Skipulagsstofnun gaf hins vegar Vegagerðinni það óformlega svar í síðasta mánuði að það gengi ekki, þar sem búið væri að hafna framkvæmdinni, jafnvel þótt ný tillaga væri um breytta veglínu. Vegagerðin gefst samt ekki upp.

Formleg niðurstaða er kæranleg til æðra stjórnvalds og því virðist sem Vegagerðin sé tilbúin að fara í hart gegn afstöðu Skipulagsstofnunar.
„Ég veit ekki hvort við segjum að fara í hart. En við ætlum að reyna allt sem við getum til þess að að fá þessa línu inn í matsferlið. Við erum ekki að tala um að fá framkvæmdaleyfi fyrir henni núna. Við erum að tala um að fá að skoða hana í umhverfismatsferli, ásamt ýmsum fleiri línum,” segir vegamálastjóri.
Við blasir að Skipulagsstofnun muni aftur segja nei. En er þá ætlan Vegagerðar að reyna að fá slíkri neitun hnekkt með kæru?
„Það hefur nú ekki verið tekin ákvörðun um það. En það er ekkert ólíklegt að við reynum að fara þá leið til enda því það eru ákveðnir úrskurðaraðilar þar sem geta tekið við slíkri niðurstöðu.”
-En hversvegna leggur Vegagerðin þessa ofuráherslu á leiðina um Teigsskóg?
„Af því að þetta er að okkar mati langbesta vegtengingin. Þetta er öruggasti vegurinn og við teljum að umhverfisáhrifin séu, með okkar nýju útfærslum, ekki það mikil að það ætti ekki að vera hægt að samþykkja hana.
En auðvitað getum við ekki litið framhjá því að þetta er líka kostnaðarspursmál. Þessi lína er þremur milljörðum ódýrari heldur en næsti kostur sem kæmi þá upp á borðið. Og við teljum einfaldlega að það sé ábyrgðarhluti að reyna ekki til þrautar að koma því í gegn því það er hægt að gera gífurlega mikið í samgöngumálum þarna og annarsstaðar fyrir þrjá milljarða,” segir Hreinn Haraldsson.
