Evra við Eystrasalt Ólafur Þ. Stephensen skrifar 2. janúar 2014 00:00 Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, þegar þau lýstu yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum 1991. Íslendingar hafa alla tíð staðið með þessum ríkjum í sjálfstæðisbaráttu þeirra. Stjórnvöld í öllum Eystrasaltsríkjunum litu svo á frá upphafi að virk þátttaka í vestrænu samstarfi væri rökrétt framhald á þeirri baráttu. Þau sóttust þannig strax eftir – og fengu – aðild að Atlantshafsbandalaginu og síðar að Evrópusambandinu. Í þessum ríkjum hefur ríkt breið samstaða um að smáríki gæti hagsmuna sinna bezt með því að festa sig í kjarna vestræns samstarfs. Þau eru þá við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar um mál sem þau varða, í stað þess að vera leiksoppar í stórveldapólitík. Þau líta ekki á samstarfið sem skerðingu á fullveldi sínu, heldur leið til að varðveita sjálfsákvörðunarrétt sinn. Á síðustu árum hafa Eystrasaltríkin öll tekið ákvarðanir sem mörgum vinum þeirra hér á landi hljóta að þykja óskiljanlegar, miðað við allar hrakspárnar um að evran sé að fara að hrynja, miðstýringarvaldið í ESB kúgi evruríkin og að sameiginlegi gjaldmiðillinn sé almennt til óþurftar. Þau hafa öll ákveðið að taka upp evruna. Eistland gerði það í ársbyrjun 2011, í miðri evrukrísu, Lettland gerði það í gær og Litháen stefnir að evruaðild að ári. Margir spáðu illa fyrir upptöku evrunnar í Eistlandi, en reyndin er að hún hefur skilað eistnesku efnahagslífi miklum hagsbótum, sem Lettar hafa horft til. Undirbúningur að upptöku gjaldmiðilsins kostaði miklar fórnir í báðum ríkjum, ekki sízt gríðarlegan niðurskurð í ríkisfjármálum. En það eru fórnir sem hefði hvort sem var þurft að færa til að ná tökum á efnahagslífinu – og margir stjórnmálamenn í þessum ríkjum benda á að markmiðið um upptöku evrunnar hafi stuðlað þeim aga sem var nauðsynlegur. Eftir gjaldmiðilsskiptin hefur afstaða almennings í Eistlandi í garð evrunnar orðið jákvæðari. Meirihluti Letta hefur hins vegar enn efasemdir um að upptaka evrunnar verði til góðs. Afstaða stjórnvalda og flestra atvinnurekenda er aftur á móti alveg skýr. Latið var óstöðugur gjaldmiðill og óttinn við að hann félli í verði fældi fjárfesta frá Lettlandi og kom niður á lánshæfi þess. Upptaka evrunnar þýðir líka að landið fær stuðning frá Seðlabanka Evrópu og öðrum evruríkjum ef það lendir í vanda í framtíðinni. Valdis Dombrovskis, forsætisráðherra Lettlands, benti í viðtali við BBC fyrr á árinu á það sem flestir vita sem vilja vita það; að kreppa evrusvæðisins er ekki gjaldmiðilskreppa. Evran er sterk og stöðug, en evruríkin hafa mörg glímt við efnahags- og ríkisfjármálakreppu. Dombrovskis bendir líka á að tök séu að nást á ástandinu, með harðari aga í ríkisfjármálum og bættri hagstjórn. „Þegar evran er komin, get ég verið viss um að gjaldmiðillinn falli ekki í verði. Þá get ég virkilega talað við bankana og skipulagt fyrirtækið mitt. Á heildina litið munu fyrirtækin í Lettlandi búa við meiri stöðugleika,“ sagði Aigars Rungis, eigandi bjórverksmiðju í Lettlandi, við BBC síðastliðinn mánudag. Það er hætt við að margir íslenzkir atvinnurekendur myndu taka undir með honum. Og margir mættu reyndar íhuga hvort það sama eigi ekki við um Ísland og Eystrasaltsríkin – að aukin þátttaka í Evrópusamstarfinu sé framhald á sjálfstæðisbaráttunni, en ekki andstæða hennar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið 40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal Skoðun Stjórnlaust útlendingahatur Útlendingastofnunar Jón Frímann Jónsson Skoðun Smábátar bjóða betur! Kjartan Páll Sveinsson Skoðun Kvenréttindi varða okkur öll - óháð kyni Rósa S. Sigurðardóttir Skoðun Hverskonar frelsi vill Viðreisn? Reynir Böðvarsson Skoðun Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Af hverju hóflegan jöfnuð fremur en ójöfnuð? Guðmundur D. Haraldsson Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar – Móses og Martin Luther King Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Tíminn til að njóta Þröstur V. Söring Skoðun
Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, þegar þau lýstu yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum 1991. Íslendingar hafa alla tíð staðið með þessum ríkjum í sjálfstæðisbaráttu þeirra. Stjórnvöld í öllum Eystrasaltsríkjunum litu svo á frá upphafi að virk þátttaka í vestrænu samstarfi væri rökrétt framhald á þeirri baráttu. Þau sóttust þannig strax eftir – og fengu – aðild að Atlantshafsbandalaginu og síðar að Evrópusambandinu. Í þessum ríkjum hefur ríkt breið samstaða um að smáríki gæti hagsmuna sinna bezt með því að festa sig í kjarna vestræns samstarfs. Þau eru þá við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar um mál sem þau varða, í stað þess að vera leiksoppar í stórveldapólitík. Þau líta ekki á samstarfið sem skerðingu á fullveldi sínu, heldur leið til að varðveita sjálfsákvörðunarrétt sinn. Á síðustu árum hafa Eystrasaltríkin öll tekið ákvarðanir sem mörgum vinum þeirra hér á landi hljóta að þykja óskiljanlegar, miðað við allar hrakspárnar um að evran sé að fara að hrynja, miðstýringarvaldið í ESB kúgi evruríkin og að sameiginlegi gjaldmiðillinn sé almennt til óþurftar. Þau hafa öll ákveðið að taka upp evruna. Eistland gerði það í ársbyrjun 2011, í miðri evrukrísu, Lettland gerði það í gær og Litháen stefnir að evruaðild að ári. Margir spáðu illa fyrir upptöku evrunnar í Eistlandi, en reyndin er að hún hefur skilað eistnesku efnahagslífi miklum hagsbótum, sem Lettar hafa horft til. Undirbúningur að upptöku gjaldmiðilsins kostaði miklar fórnir í báðum ríkjum, ekki sízt gríðarlegan niðurskurð í ríkisfjármálum. En það eru fórnir sem hefði hvort sem var þurft að færa til að ná tökum á efnahagslífinu – og margir stjórnmálamenn í þessum ríkjum benda á að markmiðið um upptöku evrunnar hafi stuðlað þeim aga sem var nauðsynlegur. Eftir gjaldmiðilsskiptin hefur afstaða almennings í Eistlandi í garð evrunnar orðið jákvæðari. Meirihluti Letta hefur hins vegar enn efasemdir um að upptaka evrunnar verði til góðs. Afstaða stjórnvalda og flestra atvinnurekenda er aftur á móti alveg skýr. Latið var óstöðugur gjaldmiðill og óttinn við að hann félli í verði fældi fjárfesta frá Lettlandi og kom niður á lánshæfi þess. Upptaka evrunnar þýðir líka að landið fær stuðning frá Seðlabanka Evrópu og öðrum evruríkjum ef það lendir í vanda í framtíðinni. Valdis Dombrovskis, forsætisráðherra Lettlands, benti í viðtali við BBC fyrr á árinu á það sem flestir vita sem vilja vita það; að kreppa evrusvæðisins er ekki gjaldmiðilskreppa. Evran er sterk og stöðug, en evruríkin hafa mörg glímt við efnahags- og ríkisfjármálakreppu. Dombrovskis bendir líka á að tök séu að nást á ástandinu, með harðari aga í ríkisfjármálum og bættri hagstjórn. „Þegar evran er komin, get ég verið viss um að gjaldmiðillinn falli ekki í verði. Þá get ég virkilega talað við bankana og skipulagt fyrirtækið mitt. Á heildina litið munu fyrirtækin í Lettlandi búa við meiri stöðugleika,“ sagði Aigars Rungis, eigandi bjórverksmiðju í Lettlandi, við BBC síðastliðinn mánudag. Það er hætt við að margir íslenzkir atvinnurekendur myndu taka undir með honum. Og margir mættu reyndar íhuga hvort það sama eigi ekki við um Ísland og Eystrasaltsríkin – að aukin þátttaka í Evrópusamstarfinu sé framhald á sjálfstæðisbaráttunni, en ekki andstæða hennar.
Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Innviðauppbygging og viðhald í Sveitarfélaginu Árborg Álfheiður Eymarsdóttir,Sveinn Ægir Birgisson Skoðun
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun