Landhelgisgæslan aðstoðaði í nótt Ítölsku strandgæsluna við að bjarga flutningaskipinu Ezadeen sem var á reki í átt að ítölsku miðjarðarhafsströndinni. Rúmlega fjögurhundruð flóttamenn er um borð í skipinu hið minnsta og þar af minnst 60 börn. Áhöfnin hafði flúið frá borði og var skipið því stjórnlaust.
Týr kom að skipinu um klukkan átta í gærkvöldi út af Taranto flóa á suður Ítalíu.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni voru nokkrir sjóliðar úr áhöfn varðskipsins Týs fluttir yfir í skipið til að taka þar við stjórn og hóf varðskipið svo að draga það í átt til lands um klukkan fimm í nótt að íslenskum tíma.
Skipin eru væntanleg til lands í Ítalíu seinnipartinn í dag, en ferðing gengur hægt fyrir sig sökum veðurs. Ferðin sækist þó fremur seint sökum slæms veðurs á svæðinu en búist er við að skipin nái til einhverrar ítalskrar hafnar síðdgis, ef allt gengur að óskum.
Skortur er orðinn á ýmsum nauðsynjum um borð í flutningaskipinu og ætla varðskipsmenn að reyna að flytja þangað vatn og neyðarvistir, en aðstæður eru erfiðar þar sem þungt er í sjóinn og ölduhæð mikil.
