Veiði

RISE fluguveiðihátíð og Veiðisýning 26. mars

Karl Lúðvíksson skrifar
RISE kvikmyndahátíðin þar sem fluguveiðimyndir eru í aðalhlutverki verður sett 26. mars næstkomandi en á sama stað verður einnig veiðisýning.

Veiðisýningin 2015 verður sett upp í anddyri Háskólabíó fimmtudagskvöldið 26. mars n.k. Þar munu fyrirtæki sýna vörur sínar og þjónustu fyrir gesti og gangandi frá kl. 18:00 – 22:00. Frítt er inn fyrir alla og eru veiðimenn og þeirra vinir og vandamenn hvött til að heimsækja sýninguna.  Dagskrá veiðisýningarinnar er enn í mótun en fyrirhugað er að bjóða upp á fyrirlestra í stærsta sal Háskólabíó frá kl. 18:00 – 19:30. Kl. 20:00 hefst svo sýning á fluguveiði kvikmyndum á RISE fluguveiði kvikmyndahátíð sem haldin verður sama kvöld í fimmta sinn.

Einnig hefur boðað komu sína á sýninguna hinn heimsfrægi fluguhnýtari Davie McPhail. Davie, sem er einn fremsti fluguhnýtari heims, verður á sýningunni að hnýta flugur og ræða við gesti og gangandi um fluguhnýtingar og veiði í boði Veiðiflugna Langholtsvegi og Atlantic Flies. Ljóst er að um mikinn happafeng er að ræða því Davie er mjög vel þekktur innan fluguhnýtingageirans en yfir 34.000 manns eru áskrifendur að Youtube rás hans og myndbönd hans hafa fengið yfir 12 milljónir áhorfa á Youtube.

Við eigum eftir að fjalla meira um RISE hátíðina og Veiðisýninguna þegar nær dregur.






×