Meint nauðgun er hluti af einu skrýtnasta fréttamáli í lengri tíma á Íslandi sem hófst með fréttum af tilraun systranna Hlínar og Malínar Brand til að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og fjölksyldu hans í síðustu viku. Voru þær handteknar síðastliðinn föstudag og liggur játning um aðild að því máli fyrir.
Í kjölfarið á játningu þeirra systra steig maður fram á miðvikudaginn og lagði fram kæru á hendur systrunum fyrir fjárkúgun. Sú fjárkúgun átti sér stað fyrri hluta apríl í kjölfar þess að maðurinn og Hlín fóru saman heim laugardaginn 4. apríl. Fer tvennum sögum af því sem þar fór fram. Systurnar voru yfirheyrðar að kvöldi miðvikudags vegna málsins.

Fyrir liggur að Malín ræddi við manninn. Maðurinn segir þær systur hafa hótað að kæra hann fyrir nauðgun nema hann reiddi fram 700 þúsund krónur. Malín sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla í gær að maðurinn hafi haft áhyggjur af mannorði sínu, hvort sem kæran leiddi til sakfellingar eða ekki. Úr hafi orðið sátt um greiðslu miskabóta. Hafi Hlín lagt til upphæðina 700 þúsund krónur.
Maðurinn segist hafa kvittun undir höndum á bréfsefni Morgunblaðsins, þar sem Hlín starfaði, sem sanni hótunina. Malín segir hins vegar að um sé að ræða sönnun um sátt sem til sé í tveimur eintökum. Upphæðin hafi komið fram en ekki hafi verið um kvittun að ræða.
Ekki hefur náðst samband við Friðrik Smára Björgvinsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, undanfarinn sólarhring þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.