„Í tillögunni, sem samin var í vor og dreift til þingmanna sem sitja í nefnd um endurskoðun útlendingalaga og aftur í síðustu viku, er talað um 500 manns en í ljósi þess að vandinn vex með viku hverri tel ég að það megi endurskoða þann fjölda,“ skrifar Sigríður Ingibjörg í póstinum sem Vísir hefur undir höndum. Þingmenn Samfylkingarinnar, Birgitta Jónsdóttir og Páll Valur Björnsson hafa þegar samþykkt meðflutning.

Tillagan fyrrnefnda felur í sér aukinn stuðning við móttöku flóttafólks.
Hér eftir fer tillaga Sigríðar Ingibjargar:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað undirbúning á móttöku flóttamanna, þ.e. kvótaflóttafólki, til landsins á næstu þremur árum í samvinnu við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Stefnt verði að því að 100 flóttamönnum verði boðin dvöl hér á landi árið 2015, 200 árið 2016 og 200 árið 2017. Sérstök áhersla verði lögð á móttöku flóttafólks frá Sýrlandi og flóttafólks annars staðar frá sem er í sambærilegri stöðu og viðkvæmir hópar flóttamanna sem Ísland hefur tekið á móti undanfarin ár í samstarfi við Flóttamannahjálpina.
Vegna langvarandi stríðsástands í Sýrlandi skal jafnframt unnið að aukinni fjölskyldusameiningu Sýrlendinga, m.a. með því að heimila tímbundið veitingu dvalarleyfa til aðstandenda Sýrlendinga sem búsettir eru á Íslandi.
Þá verði samhliða unnin áætlun um móttöku kvótaflóttamanna sem taki gildi árið 2018 þar sem tryggt verði að Ísland taki á móti flóttafólki til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins.“