Myndlistarkonan Arngunnur Ýr Gylfadóttir hefur opnað sýningu í Hörpu og á morgun lítur bókin Vitni/Witness dagsins ljós, hún er með myndum Arngunnar Ýrar og textum eftir skáldið Elísabetu Jökulsdóttur.
„Ég hef oft hrifist af því hvernig Elísabet lýsir náttúrunni sem ægilegri og hrífandi í senn svo ég hringdi í hana og spurði hvort hún væri ekki til í einhvers konar samvinnu, því mig langaði að gefa út bók,“ lýsir listakonan.
Hún segir Elísabetu hafa verið í Hveragerði en tekið vel í erindið og að allir textarnir í bókinni séu nýir. Þær fari hvor sína leið í sköpuninni og svo sé það lesandans að finna út hvernig tengingin er. „Báðar höfum við Elísabet áhuga á ákveðnum töfrum og því sem virðist óskiljanlegt við fyrstu sýn, enda er texti í bókinni sem heitir Krípí náttúra.“
Arngunnur Ýr starfar við leiðsögn og hefur gert í tuttugu og fimm ár. „Landslagið síast inn hjá mér í ferðalögunum og ég vinn út frá þeirri reynslu,“ segir hún. Arngunnur tekur líka fram að sýningin standi til 16. september og að útgáfuteiti verði í Hörpu klukkan 17 á morgun, 3. september. Þar spili félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og allir séu velkomnir.
Töfrar náttúrunnar birtast í texta, tónum og myndum
