Í gær var fyrri dagurinn í tveggja daga verkfallslotu SFR og sjúkraliða sem lýkur á miðnætti í kvöld. Næsta lota er frá mánudegi til þriðjudags. Þar fyrir utan er hafið ótímabundið verkfall á Landspítala, hjá Ríkisskattstjóra, Tollstjóra og sýslumannsembættum landsins.
Alls eru fyrirhuguð fimm tveggja daga skæruverkföll fram í miðjan næsta mánuð, en þá tekur við ótímabundið verkfall á öllum vígstöðvum hafi ekki samist. Verkföllin valda röskun á starfsemi nær allra vinnustaða ríkisins, en þeir eru 159 talsins.
Viðræður stóðu í allan gærdag í kjaradeilunni hjá Ríkissáttasemjara. Verkfallsaðgerðum stéttarfélaganna er hins vegar stjórnað úr sameiginlegri verkfallsmiðstöð þeirra við Grettisgötu í Reykjavík.

„Oftast nær hefur þetta gengið vel fyrir sig, en svo er hitt og þetta að koma upp á.“ Mikið hafi verið að gera í gær þegar forsvarsmenn stofnana hafi vaknað upp við vondan draum um mikilvægi starfa þeirra sem í verkfalli voru og áhrif verkfalls þeirra á starfsemina.
„Þetta er fólkið í stoðþjónustunni, almennri afgreiðslu, á síma og á skrifstofu. Fólkið sem á að opna dyrnar.“ Því hafi verið nokkur brögð að því að reynt hafi verið að fara í kringum verkfallið, bæði vegna misskilnings og líka af ráðnum hug.
„Við höfum svolítið rekið okkur á að háskólarnir og skólar hafi verið að færa til kennslu. Til dæmis hefur þetta gerst í Háskóla Íslands,“ segir Sólveig. Þetta hafi meðal annars verið gert að fyrirmælum deildarstjóra sem bent hafi kennurum á að flytja kennslu úr húsi og eins hafi einstaka kennarar fundið þetta upp hjá sjálfum sér.
Í hluta þessara tilvika segir Sólveig að vísað hafi verið til þess að leyfilegt sé að halda umræðufundi með nemendum á öðrum stöðum en í háskólabyggingu. „Það er slatti af svona málum sem komið hefur upp.“
Þá segir Sólveig hafa komið í ljós á heilbrigðisstofnunum og á Landspítalanum að undanþágulistar hafi ekki verið fullkomnir. „Það er eins og enginn hafi gert ráð fyrir því að SFR myndi nokkurn tímann fara í verkfall.“ Undanþágunefnd hafi verið að störfum í fyrradag og allan gærdag líka þar sem farið sé yfir þessi mál.