Margar spurningar hafa vaknað um ferðina eftir að upplýst var um að stjórnarformaður Orku Energy, Haukur Harðarson, bjargaði Illuga og eiginkonu hans úr fjárhagserfiðleikum með að kaupa af þeim íbúð þeirra við Ránargötu, fyrir 53,5 milljónir króna, árið 2013. Illugi var einnig starfsmaður félagsins á þeim tíma sem hann tók sér launalaust leyfi frá þingstörfum í kjölfar birtingu rannsóknarskýrslu alþingis um fall bankanna haustið 2008, en Illugi var í stjórn Sjóðs 9, sem fjallað var um í skýrslunni.
Spurningarnar sem Svandís hefur lagt fyrir ráðherrann eru eftirfarandi:
- Hver hafði frumkvæði að því að ráðherra færi í vinnuferð til Kína 20. mars 2014?
- Hvert var hlutverk utanríkisráðuneytisins við skipulagningu og framkvæmd ferðarinnar?
- Hefur ráðherra mennta-, menningar- og vísindamála áður farið sambærilega ferð til Kína eða annarra ríkja?
- Hvenær var eftirtöldum aðilum boðið að taka þátt í dagskrá ráðherra í ferðinni: rektor Háskóla Íslands, rektor Háskólans á Akureyri, rektor Listaháskóla Íslands, rektor Háskólans í Reykjavík, forstöðumanni Rannís, fulltrúum Marels og fulltrúum Orku Energy, og hvenær lá þátttaka þeirra fyrir?
- Hvers vegna var heimsókn á jarðhitasvæði í nágrenni Peking hluti af dagskrá ráðherra, hver hafði frumkvæði að þeirri heimsókn og hverjir fylgdu honum þangað?
- Hvert var efni fundar ráðherra með borgarstjóra Peking og hverjir sátu þann fund með ráðherra?
- Hvenær voru einstakir liðir í dagskrá ráðherra í vinnuferð hans til Kína ákveðnir? Óskað er eftir dagsetningum á óskum um fundi, heimsóknir eða aðra viðburði sem voru á dagskránni og jafnframt dagsetningum á staðfestingum á þátttöku ráðherrans í umræddum viðburðum.
Þá liggja fyrir ráðherranum spurningar frá Vísi um greiðslur til OG Capital árið 2012.