Illugi hafnar því að hafa fengið lán frá Orku Energy en Stundin greindi frá því að hann hefði fengið 3 milljóna króna lán frá fyrirtækinu. Illugi sagði í samtali við Stöð 2 að ekki hefði verið um lán að ræða heldur fyrirframgreidd laun. Í viðtalinu afhenti hann fréttamanni afrit af launaseðli sínum frá Orku Energy í febrúar 2012 og má nálgast launaseðililnn hér neðar. Á seðlinum kemur fram að heildarlaun og hlunnindi Illuga frá Orku Energy vegna launauppgjörs í umrætt sinn hafi numið rúmlega 5,6 milljónum króna. Þar af séu fyrirframgreidd laun upp á 2.950.000 kr.

Sjá má viðtal við Illuga í meðfylgjandi myndskeiði þar sem hann svarar fyrir fjárhagsleg tengsl sín og Orku Energy.
Illugi hafnar því að hafa verið „fjárhagslega háður“ Hauki Harðarsyni þegar Haukur og fjórir aðrir starfsmenn Orku Energy fóru í opinbera heimsókn með ráðherranum og öðrum starfsmönnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til Kína í mars á þessu ári en Orka Energy kemur að umfangsmiklum jarðhitaverkefnum í Kína. Með í för til Kína voru einnig þrír starfsmenn Marel og rektorar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og forstjóri Rannís.