Samningafundur SFR, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna við ríkið stendur enn yfir en Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segist telja viðræðurnar á lokametrunum. Fundur hefur staðið yfir frá því klukkan níu í morgun.
„Það er unnið hér hörðum höndum jafnvel að ná þessu í nótt,“ segir Árni Stefán. „Við reyndum við þetta í fyrrinótt en það gekk ekki. Þessi mál hafa svona smátt og smátt verið að leysast sem við stoppuðum á í nótt.“
Aðspurður segist hann bjartsýnni en áður og að verið sé að stefna á að ná samningum nú í nótt eða undir morgun.
Umfangsmiklar verkfallsaðgerðir SFR og Sjúkraliðafélagsins skella á á fimmtudag ef samningar nást ekki á morgun. Þá hefst þing BSRB í fyrramálið og stendur fram á föstudag. Þangað mætir stór hluti samninganefnda allra þriggja stéttarfélaga og munu samningaviðræður því tæplega standa á meðan.
