Læknafélag Íslands hefur sett saman andmælabréf og sent forstjóra Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna bréfs sem Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á heilsugæslustöðinni í Árbæ, fékk.
Í bréfinu var sagt frá áformum Heilsugæslunnar um að grípa til viðeigandi úrræða vegna samstöðu sem Gunnar Ingi sýndi móttökuriturum í verkfalli með því að hvetja samstarfsmenn til að sinna eingöngu bráðatilfellum. „Mér fannst ég vera að sinna skyldum mínum. Ágreiningur var milli stéttarfélagsins og Heilsugæslunnar um útfærslu á starfi ritararanna í verkfalli og ég tók þá afstöðu sem mér fannst réttust,“ segir Gunnar Ingi.
Í bréfi Læknafélags Íslands kemur fram að félagið telji ekki tilefnið réttlæta áminningu, hvað þá segja upp ráðningarsamningi eða rifta honum fyrirvaralaust. „Gunnar Ingi hefur aldrei fengið aðvörun eða áminningu fyrir störf sín. Þvert á móti fékk hann sérstakar þakkir fyrir nokkrum árum fyrir vel unnin störf í þágu stofnunarinnar,“ segir meðal annars í bréfinu. Einnig að óheimilt sé að segja starfsmanni upp án áminningar nema fækka eigi starfsmönnum stofnunar.
Gunnar Ingi segist afar þakklátur. „Þetta mál varðar ekki bara mig heldur líka stöðu samstarfsmanna okkar og allra lækna í raun – að maður geti átt von á að fá svona sendingar.“
Óheimilt að segja upp lækni nema eftir áminningu

Tengdar fréttir

Móttökuritarinn í Árbæ: Við sýnum yfirlækninum fullan stuðning
Segir að starfsmenn muni fylgja yfirlækninum, verði hann látinn fara.

Yfirlækni hótað uppsögn fyrir að styðja verkfall
Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á Heilsugæslunni í Árbæ, sendi bréf til starfsmanna heilsugæslunnar í aðdraganda verkfalls ritara stöðvarinnar.